Ræningjar fara í fangelsi

héraðsdómur.
héraðsdómur. Ernir Eyjólfsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag tvo karlmenn, á fertugs- og fimmtugsaldri, í þriggja og tveggja ára fangelsi fyrir frelsissviptingu og rán. Mennirnir réðust inn á heimili í Breiðholti og héldu húsráðanda nauðugum, beittu hann ofbeldi og rændu hann tæpri hálfri milljón króna.

Mennirnir, Daniel Arciszewski og Snorri Sturluson, játuðu brot sín. Þeir réðust inn á heimili manns um miðja nótt í byrjun júlí, bundu hann á höndum og fótum, settu límband fyrir munn hans og beittu hann bjargarlausan ofbeldi klukkustundum saman. Daniel fékk þriggja ára fangelsisdóm fyrir brot sín og Snorri tveggja ára dóm.

Daniel og Snorri gáfu manninum skipanir um að veita þeim upplýsingar um bankanúmer og aðgangsnúmer til þess að taka peninga út af bankareikningum hans. Maðurinn lét undan og voru millifærðar 453 þúsund krónur af reikningi hans yfir á reikninga árásarmannanna.Þá leituðu þeir Daniel og Snorri verðmæta á heimilinu og tóku ýmis verðmæti.

Ofbeldið og frelsissviptingin stóð yfir frá 03:00 um nóttina þar til samstarfsmenn fórnarlambsins komu honum til hjálpar um klukkan 10:30 um morguninn, en þeir undruðust að hann var ekki mættur til vinnu.

Auk fangelsisvistar er Daniel og Snorra gert að greiða fórnarlambi sínu 1.200 þúsund króna í miskabætur.

Daniel Arciszewski í dómsal í dag, skömmu áður en dómur …
Daniel Arciszewski í dómsal í dag, skömmu áður en dómur var kveðinn upp. mbl.is/Andri Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert