Grímsstaðir heita núna Nubostaðir

Eins og sjá má er búið að líma yfir nafnið …
Eins og sjá má er búið að líma yfir nafnið Grímsstaðir. Þar stendur núna Nubostaðir. Ljósmynd/Haukur Arnar Emilsson

Búið er að líma yfir skilti Vegagerðarinnar við vegamótin við Grímsstaði á Fjöllum. Þar stendur ekki lengur Grímsstaðir heldur Nubostaðir.

Þetta kemur fram í frétt á vefnum skarpur.is. Sem kunnugt er áformar kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo að leigja hluta jarðarinnar og reisa þar hótel. Þessi áform eru umdeild.

Það var Haukur Arnar Emilsson bifreiðastjóri sem ók fram hjá skiltinu í gærmorgun og tók þessa mynd. Bændur á Grímsstöðum höfðu ekki tekið eftir þessari breytingu þegar haft var samband við þá í morgun. Skiltið er í eigu Vegagerðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is hafa verið gerðar breytingar á fleiri skiltum á Norðausturlandi. Þannig er búið að breyta skilti þar sem stendur Hólsfjöll í Fjöll og á skilti við Ásbyrgi stendur Hásbyrgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert