Munir renna til Þjóðminjasafns

Safnhúsið er risið en er hins vegar aðeins fokhelt. Gengið …
Safnhúsið er risið en er hins vegar aðeins fokhelt. Gengið hefur verið frá húsinu og því er ekki hætta á skemmdum. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Munir Lækningaminjasafns Íslands munu renna til Þjóðminjasafns Íslands, þar sem safnkosturinn mun áfram mynda heildstætt safn lækningaminja. Lækningaminjasafnið verður formlega lagt niður í lok mánaðar.

Læknaminjasafn Íslands var stofnað samkvæmt stofnskrá sem byggði á samningi Læknafélag Íslands, menntamálaráðuneytis, Seltjarnarnesbæjar og Þjóðminjasafns Íslands um stofnkostnað, byggingu og rekstur húsnæðis fyrir Lækningaminjasafn Íslands og menningartengda starfsemi sem undirritaður var þann 27. september. 2007. Í stofnskránni kemur fram að stofnandi safnsins er Seltjarnarnesbær og um er að ræða stofnun í eigu bæjarins.

Ástæðan fyrir því að meirihluti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar hefur lagt til og samþykkt að safnið verði lagt niður eru brostnar forsendur frá því að samningur var undirritaður frá 27. september 2007. Sá samningur gilti til 31. des. 2012 og var ekki framlengdur.

Skömmu fyrir áramót tilkynnti Seltjarnarnesbær mennta- og menningarmálaráðuneytinu að bærinn myndi ekki bera ábyrgð á rekstri safnsins frá 1. janúar 2013.

Að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðherra yfirtók ráðuneytið ábyrgð á rekstri Lækningaminjasafnsins frá og með 1. janúar síðastliðnum. Stjórn safnsins sem skipuð hefur verið tveimur fulltrúum Læknafélags Íslands, einum fulltrúa Þjóðminjasafns Íslands og tveimur fulltrúum frá Seltjarnarnesbæ er leyst frá störfum frá 31. janúar 2013.

Minnihlutinn vildi framlengja samninginn

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness lagði minnihlutinn fram tillögu vegna Lækningaminjasafnsins. Hún fól í sér að núgildandi samningur um uppbyggingu og rekstur safnsins yrði framlengdur um eitt ár og tíminn nýttur til viðræðna um nýjan samning í ljósi breyttra aðstæðna sem feli m.a. í sérathugun á breyttu hlutverki safnsins, breyttu rekstrarformi eftir atvikum og nýja tímaáætlun og áfangaskiptingu framkvæmda.

Tillagan var felld.

Í bókun minnihlutans segir að fyrir liggi hugmyndir og áætlanir sem stjórn safnsins lét vinna um uppbyggingu og rekstur safnsins. Þær hafi ekki verið skoðaðar að neinu marki. „Samhliða þessari ákvörðun liggur ekki fyrir nauðsynlegt mat á þeirri stöðu sem ákvörðun meirihlutans kann að setja bæjarfélagið í, s.s. hvað varðar kröfur samstarfsaðila um endurgreiðslu þess fjár sem þeir hafa lagt í verkefnið fram að þessu, en ríkið og læknafélögin hafa lagt 125 milljónir í verkefnið.

Þetta eru umtalsverðir fjármunir og með ákvörðuninni verða að líkindum einnig þeir fjármunir sem Seltjarnarnesbær hefur lagt í uppbyggingu safnsins að engu.“

Fyrsta skóflustungan tekin að húsi lækningaminjasafnsins.
Fyrsta skóflustungan tekin að húsi lækningaminjasafnsins.
mbl.is