Dæmdur fyrir stórfelldan fjárdrátt

mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í átta mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt, en sex mánuðir eru skilorðsbundnir. Þá er manninum gert að greiða þrotabúi einkahlutafélags 15 milljónir kr. í bótakröfu.

Héraðsdómur segir að ætla verði að brot mannsins hafi verið stórfellt þar sem það varð til þess að félagið var úrskurðað gjaldþrota í kjölfarið. Þá hafi einbeittur ásetningur mannsins legið að baki brotinu, en maðurinn hafði mikla hagnaðarvon gengju áætlanir hans eftir.

Í september í fyrra ákærði sérstakur saksóknari manninn fyrir fyrir fjárdrátt en til vara umboðssvik í tveimur ákæruliðum.

Í þeim fyrri var manninum var gert að sök að hafa í starfi sem framkvæmdarstjóri og prókúruhafi umrædds einkahlutafélags á tímabilinu mars 2009 til og með október 2010, misnotað aðstöðu sína og dregið sér fé samtals kr. 15.719.280. Í alls tuttugu skipti millifærði hann fé af bankareikningi félagsins inn á sinn persónulega reikning og þannig ráðstafaði hann peningunum í eigin þágu og málarekstur í Serbíu sem varðar lögaðila óskyldan íslenska einkahlutafélaginu.

Í þeim seinni var hann ákærður fyrir fjárdrátt en til vara umboðssvik með því að hafa í starfi sem framkvæmdarstjóri og prókúruhafi einkahlutafélagsins í ágúst 2009 misnotað aðstöðu sína og dregið sér jeppabifreið. Með kaupsamningi keypti hann bifreiðina af félaginu fyrir samtals kr. 1.530.000, án þess að hafa gert skil á umræddu kaupverði við félagið. Þá ráðstafaði hann fjármununum í eigin þágu og málarekstur í Serbíu sem varðar lögaðila óskyldan íslenska einkahlutafélaginu.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi komið fyrir dóminn við þingfestingu málsins og kveðið þá háttsemi sem lýst sé í fyrsta ákæruliðnum rétta utan að hann kvaðst setja spurningu við að fénu hafi verið ráðstafað í eigin þágu.

Varðandi ákærulið tvö viðurkenndi maðurinn að hafa keypt bifreiðina eins og segir í ákæruliðnum en samþykkti ekki að hafa ráðstafað fénu í eigin þágu. Þá samþykkti hann bótakröfuna.

Maðurinn krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Hann byggði sýknukröfu sína á því að hann hafi aldrei falið gjörning sinn, hann hafi ekki dregið sér umrædda fjármuni heldur fengið þá að láni hjá einkahlutafélaginu, sem sé fyrirtæki sem hann hafi átt að fullu. Hann hafi því haft heimildir til að ráðstafa umræddum fjármunum og hafi það ekki verið saknæmt.

Héraðsdómur var á öðru máli og dæmdi hann í átta mánaða fangelsi. Þar sem hann játaði háttsemi sína greiðlega fyrir lögreglu og dóminum, og þar sem honum hefur ekki áður verið gerð refsing, þótti rétt að skilorðsbinda sex mánuði refsingarinnar.

mbl.is