Birgitta neitar að lifa í ótta

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segist neita að lifa í ótta. Hún ætlar að fara til Bandaríkjanna 5. apríl þrátt fyrir að hún hafi fengið viðvörun um að hún kunni að verða handtekin í Bandaríkjunum.

Rússneska fréttastofan rt.com fjallar um Birgittu og ferð hennar til Bandaríkjanna. Í fréttinni segir að Birgitta sé alþingismaður og félagi í WikiLeaks.

Um svipað leyti og Birgitta fer til Bandaríkjanna eru þrjú ár liðin frá því að WikiLeaks birti myndband sem sýnir bandaríska herþyrlu skjóta á óbreytta borgara í Írak, en Birgitta tók þátt í að koma myndbandinu á framfæri.

Birgitta segist ekki vilja lifa í ótta. „Ég vil ekki lifa í skugga. Ég veit ekki til þess að ég hafi gert neitt ólöglegt né að ég sé óvinur Bandaríkjanna. Ef þeir hins vegar telja að ég hafi brotið af mér þá vil ég vita um það,“ er haft eftir Birgittu í breska blaðinu Guardian.

mbl.is