Sleginn í höfuð með sleggju eða hamri

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur yfirheyrt tvo karlmenn sem lentu í átökum í félagshúsnæði Hells Angels í Síðumúla snemma á sunnudagsmorgun. Báðir mennirnir hlutu slæma áverka á höfði og leituðu þeir sér aðhlynningar á slysadeild. Ekki er vitað hvor þeirra átti upptökin að átökunum.

Lögreglan er með til skoðunar hvort gefin verði út ákæra í málinu enda er málið í höndum hennar þar sem annar maðurinn kinnbeinsbrotnaði í átökunum. Hinn maðurinn hlaut einnig áverka á höfði en ekki liggur fyrir hversu alvarleg þau eru. Hann fór síðar á sjúkrahús til að láta gera að sárum sínum.

Að sögn lögreglu voru barefli notuð í átökunum en lögreglan segir að annar mannanna hafi verið sleginn í höfuðið með sleggju eða hamri.

Annar mannanna er liðsmaður Hells Angels en ekki er vitað með vissu hvort hinn maðurinn sé liðsmaður samtakanna eður ei. Þá eru tildrög átakanna óljós.

Margir urðu vitni að þeim en enginn sjónarvottur vildi upplýsa lögreglu um málið við skýrslutökur. Þá er enginn í haldi í tengslum við rannsókn málsins.

Séð til þess að ólöglegur veitingastaður verði ekki rekinn í húsinu

Samkvæmi var í húsinu þegar lögreglu bar að garði. Líkt og fram hefur komið var ólöglegur veitingastaður í húsnæðinu og var á þriðja tug manna að skemmta sér, m.a. tvö 17 ára ungmenni. Lögreglan vísaði öllum út og lokaði staðnum. Síðar um daginn var framkvæmd húsleit á staðnum og lagt hald á mikið magn af fíkniefnum og áfengi.

Þrír menn voru handteknir í tengslum við húsleitina en þeim var sleppt um kvöldið að loknum yfirheyrslum.

Málið er enn til skoðunar en lögreglan mun fylgja því eftir að þarna verði ekki rekinn ólöglegur veitingastaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert