Vítisenglum gert að færa gáma

Húsnæði Vítisengla og gámarnir umræddu.
Húsnæði Vítisengla og gámarnir umræddu. mbl.is

Lögregla höfuðborgarsvæðisins fjölmennti í Síðumúla í Reykjavík í dag þar sem Vítisenglum (e. Hells Angels) var gert að færa gáma sem þeir höfðu komið þar fyrir í leyfisleysi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var í öllu farið að fyrirmælum lögreglu og vart hægt að tala um aðgerðir í þessu sambandi.

Eins og greint var frá snemma í febrúar gerðu lögreglumenn leit í húsnæði í Síðumúla í kjölfar alvarlegrar líkamsárásar. Kom í ljós að Vítisenglar höfðu hreiðrað um sig í húsnæðinu og var meðal annars rekinn þar ólöglegur veitingastaður. Á bilinu 25 til 30 voru inni á staðnum og var gleðskapur í gangi þegar lögreglu bar að garði. Þar á meðal var stúlka og drengur sem eru undir lögaldri.

Mbl.is barst í dag ábending frá vegfaranda í Síðumúla um að mikil lögregluaðgerð stæði yfir við húsnæði Vítisengla. Meðal annars að fimm eða sex lögreglubílar hefðu verið við húsið. 

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, var þó ekki um eiginlega lögregluaðgerðir að ræða. Vítisenglum hafi verið gert að fjarlægja gáma sem þeir hefðu komið fyrir við húsnæðið í leyfisleysi, og það hafi verið gert.

Merki Vítisengla á þáverandi húsnæði þeirra í Hafnarfirði.
Merki Vítisengla á þáverandi húsnæði þeirra í Hafnarfirði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert