„Annar besti árangur nýs framboðs“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, reiknar með að Framsókn og …
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, reiknar með að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur reyni stjórnarmyndun áður en aðrir kostir verði skoðaðir. Ljósmynd/Hordur Sveinsson

„Mér sýnist þetta vera annar besti árangur nýs framboð undanfarna áratugi. Það er náttúrulega mjög gott,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar um úrslit þingkosninga.

Flokkurinn fékk 8,2% atkvæða og náði inn sex þingmönnum, í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi.

„Þetta var heilmikil spenna þegar uppbótarrúllettan fór öll af stað. Við förum inn með góðan þinghóp og hlökkum til,“ segir Guðmundur.

-Hvernig blasir við þér stjórnarmyndun?

„Mér finnst blasa við, eins og mikið hefur verið talað um, að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hljóti að tala saman. Ef það tekst ekki þá sýnist mér vera einhverjar þriggja flokka stjórnir mögulegar. En ætli flestir geri ekki ráð fyrir að bíða og sjá hvað þessir tveir flokkar ætla sér. Það er eina tveggja flokka stjórnin sem er möguleg.“

-Hvað lestu almennt í úrslit kosninga?

„Þetta er breytt landslag. Við ætluðum að koma með flokk inn í litrófið - frjálslyndan og grænan. Okkur hefur tekist það og það eru sex flokkar á þingi þannig að þeim fjölgar.“

-Stjórnarskrá og Evrópusambandsaðild verið mikið í umræðunni. Ef maður skilgreinir ykkur og Samfylkingu sem „ESB-flokka“ með samanlagt 21,1% og þeir flokkar sem hafa viljað klára stjórnarskrána á grunni niðurstöðu stjórnlagaráðs með minnihluta atkvæða. Heldur þú að þessi mál séu komin í strand út frá þessu?

„Nei það held ég ekki. Þetta voru ekki aðalmál kosninganna og það væru þá ansi mörg mál komin í strand ef við beitum þeim mælikvarða. Ég var nú svolítið að rukka eftir því í kosningabaráttunni að fá það fram hvað þessir flokkar sem hafa náð meirihluta - hvað þeir ætluðu að gera í raun og veru eins og til dæmis varðandi stjórnarskrána. Mér fannst það aldrei koma skýrt fram. Ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur gera stjórnarsáttmála þá verður fróðlegt að lesa kaflann um þetta - hvað þeir ætla sér með stjórnarskrána.

Og hvort þeir ætla raunverulega að láta það verða að við hættum aðildarviðræðunum. Ég veit ekki hvort þeir hafi hugsað það til enda. Ég held að það yrði gríðarlegt ósætti við það og stór hópur fólks sem upplifi það sem nánast brot á sínum rétti að fá ekki að vita hver endanleg niðurstaða verður í því máli.

Þetta verður allt í meira lagi fróðlegt að sjá og mörg önnur mál sem voru nú ekki alveg skýr hjá öllum flokkum í kosningabaráttunni eins og til dæmis hvað menn ætla sér með rammaáætlun eða auðlindagjald. Hvað menn ætla sér með Landspítalann. Ég get ekki sagt annað en að það verði spennandi að sjá stjórnarsáttmála út frá þessu öllu saman. En svo veit maður ekkert hvernig spilast úr þessu.“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar á kjörstað í gær.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar á kjörstað í gær. mbl.is/Rósa Hildur Bragadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert