Fengu sent soðbrauð úr sveitinni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson ræða um myndun nýrrar …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson ræða um myndun nýrrar ríkisstjórnar í Alþingishúsinu í dag. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ræddu saman í dag um stöðu ríkisfjármálanna, skattkerfi, skuldsetningu heimilanna og gjaldeyrishöftin, að sögn Bjarna Benediktssonar.

Bjarni og Sigmundur Davíð boðuðu blaðamenn og ljósmyndara á fund sinn í rauða herberginu í Alþingishúsinu klukkan fimm í dag. Engar formlegar yfirlýsingar komu fram á þeim fundi en blaðamönnum gafst þó tækifæri til þess að taka viðtöl við formennina tvo.

Aðspurður hvort þeir hafi rætt í dag um áætlun Framsóknarflokksins í skuldamálum heimilanna segir Bjarni: „Já, við höfum rætt það í gær og stuttlega í dag og þurfum að nota dagana fyrir framan okkur til að fara nánar ofan í það.“ Að sögn Bjarna hefur ekkert verið rætt um ráðherrastóla og skiptingu á þeim. „Það er eitthvað sem mun koma síðast í þessu máli ef við náum saman um málefnin,“ segir Bjarni og bætir við að stjórnarmyndunarviðræðurnar hafi gengið prýðilega vel.

Soðbrauð með mysingi

„Það var komið með parta til okkar, sem sumir kalla soðbrauð. Við fengum það sent úr sveitinni og nutum þess mjög hérna ásamt mysingi,“segir Bjarni aðspurður hvort þeir Sigmundur Davíð hafi fengið sér eitthvað með kaffinu í dag.

Aðspurður hvort leið Framsóknarflokksins í skuldamálum heimilanna hafi verið rædd á fundi formannanna tveggja í dag segir Sigmundur Davíð: „Já, við höfum að sjálfsögðu gert það og áður en formlegar viðræður hófust þá voru menn búnir að ræða töluvert um þessi skuldamál. Það var í ljósi þess að ég taldi að það væri grundvöllur til að ná saman um þau mál að ég taldi tilefni til að fara út í formlegar viðræður.“ Hann bætir við að viðræðunum miði vel.

Leita lausna en ekki hindrana

Sigmundur Davíð og Bjarni eru núna báðir í sínum fyrstu stjórnarmyndunarviðræðum. Aðspurður hvernig reynsla þetta hafi verið segir Sigmundur Davíð: „Þetta hefur nú bara gengið vel, verið uppbyggilegt og lausnarmiðað sem var nú reyndar það sem maður heyrði á fleiri formönnum á þessum fyrstu dögum eftir að ég fékk stjórnarmyndunarumboðið, ég held að menn verði í pólitíkinni lausnamiðaðri en þeir hafa kannski verið undanfarin ár. Þessar viðræður mínar og formanns Sjálfstæðisflokksins hafa verið góðar að því leytinu til að menn eru að leita lausna í staðinn fyrir að leita að hindrunum.“

Að sögn Sigmundar Davíðs lét hann Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, vita af því þegar tók ákvörðun um að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og fór þá yfir hvernig allt hefði gengið fram að því. „Ég heyri eflaust aftur í honum áður en langt um líður,“ segir Sigmundur Davíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina