Framsækið skóla- og frístundastarf verðlaunað

Þrír leikskólar, þrír grunnskólar, tveir félagsmiðstöðvar og Skólahljómsveit Austurbæjar fengu í dag hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir framsækið skóla- og frístundastarf. Alls bárust 59 tilnefningar til verðlaunanna.

Þetta er í fyrsta sinn sem hvatningarverðlaun voru veitt samtímis fyrir metnaðarfullt fagstarf í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar. Markmið þeirra er að vekja athygli á gróskumiklu starfi og hvetja til nýbreytni- og þróunarstarfs.

Leitað var eftir tilnefningum til hvatningarverðlaunanna hjá foreldrum, kennurum, starfsfólki, skólum og öðrum borgarstofnunum. Jón Gnarr borgarstjóri og Oddný Sturludóttir formaður íþrótta- og tómstundaráðs afhentu verðlaunin í Ráðhúsi Reykjavíkur en verðlaunagripirnir eru eftir listakonuna Ingibjörgu H. Ágústsdóttur.

Verðlaunin hlutu:

  • Leikskólinn Blásalir fyrir verkefnið, Jörðin snýst og við líka (The earth is moving and so are we). Nordplus verkefni.
  • Leikskólinn Laufskálar fyrir verkefnið, Leiklistarleikskóli.
  • Leikskólinn Sæborg fyrir verkefnið, Okkar Sæborg.
  • Háteigsskóli fyrir verkefnið, Verkhringur á unglingastigi.
  • Hólabrekkuskóli fyrir verkefnið, Olympics International.
  • Laugarnesskóli fyrir verkefnið, Foreldrar bregða á leik í stærðfræði.
  • Félagsmiðstöðvar Miðbergs, hæfileikakeppnin Breiðholt´s got talent.
  • Félagsmiðstöðvar Kamps, Stuttmyndahátíðin Hilmarinn.
  • Skólahljómsveit Austurbæjar.

 Að auki hlutu tvö  samstarfsverkefni í hverfum viðurkenningu.

  • Samstarfsverkefnið Okkar mál í Fellahverfi. Þeir sem eiga aðild að því eru leikskólinn Ösp, leikskólinn Holt og Fellaskóli.
  • Vesturbæjarfléttan. Allir leikskólar í Vesturbæ (Drafnarsteinn, Grandaborg, Gullborg, Hagaborg, Mýri, Tjarnarborg/Öldukot, Sæborg, Vesturborg og Sæborg) grunnskólar, (Grandaskóli, Melaskóli, Vesturbæjarskóli og Hagaskóli) frístundarheimili (Frostheimar, Selið, Undraland og Skýjaborgir) og félagsmiðstöðin Frosti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert