Tveir nýir forsetar fræðasviða hjá HÍ

Dr. Jóhanna Einarsdóttir og dr. Daði Már Kristófersson eru nýir …
Dr. Jóhanna Einarsdóttir og dr. Daði Már Kristófersson eru nýir sviðsforsetar við Háskóla Ísland.

Gengið var frá ráðningu tveggja nýrra sviðsforseta við Háskóla Íslands í dag. Dr. Jóhanna Einarsdóttir hefur verið ráðin forseti Menntavísindasviðs og dr. Daði Már Kristófersson forseti Félagsvísindasviðs.

Jóhanna lauk doktorsprófi í menntunarfræðum ungra barna árið 2000 frá Háskólanum í Illinois í Bandaríkjunum, M.Ed. námi 1977 og BS-prófi 1976 frá sama skóla.

Daði Már lauk doktorsprófi frá Norwegian University of Life Sciences árið 2005, meistaraprófi í auðlindahagfræði frá Landbúnaðarháskóla Noregs árið 2000 og B.Sc.-prófi í landbúnaðarfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 1997. 

Hefur unnið að stefnumótun og rannsóknarstarfi 

Jóhanna hefur verið prófessor frá 2006 við Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands eftir sameiningu skólanna árið 2008. Frá 2006 hefur hún verið forstöðumaður Rannsóknastofu í menntunarfræðum ungra barna, sem er leiðandi vettvangur fyrir rannsóknir og þróunarstarf í leikskólum landsins.

Jóhanna ar dósent við Kennaraháskólann 1998 til 2006. Frá 1998 til 2001 var Jóhanna jafnframt námsbrautarstjóri. Hún byggði upp og stjórnaði framhaldsdeild Fósturskóla Íslands 1989 til 1997. 

Hún hefur um árabil unnið að stefnumótun í menntamálum, m.a. um kennaranám á vettvangi vísindaráðs Kennaraháskólans. Hún hefur verið leiðandi í stefnumótun fyrir leikskólakennaranámið en einnig tekið þátt í stefnumótun í menntamálum hjá ríki og sveitarfélögum, m.a. átti hún þátt í að semja Aðalnámskrá grunnskóla árið 1989 og Aðalnámskrá leikskóla 2011. 

Jóhanna hefur verið í umfangsmiklu alþjóðlegu rannsóknasamstarfi, m.a. í norrænu rannsóknarverkefni sem styrkt er af NordForsk, fjölþjóðlegum verkefnum sem styrkt eru af ESB, auk verkefna sem styrkt eru af finnska rannsóknaráðinu og því norska. Jóhanna hefur stjórnað stórum rannsóknarverkefnum í samvinnu við innlenda og erlenda háskóla. Hún situr í stjórn virtustu samtaka á sínu fræðasviði í heiminum, European Early Childhood Education Research Association. Þá hefur hún langa reynslu af samstarfi við starfsvettvang kennara. Jóhanna hefur staðið fyrir námskeiðum, ráðgjöf, skrifað kennsluefni og verið í nánu samstarfi við sveitarfélög í tengslum við skólamál. 

Jóhanna tekur við starfinu af Jóni Torfa Jónassyni prófessor í uppeldis- og menntunarfræði. 

Hefur tekið þátt í fjölda rannsóknarverkefna

Daði Már Kristófersson hefur verið dósent í hagfræði við Háskóla Íslands frá 2009 og jafnframt gegnt starfi forstöðumanns þróunar- og samstarfsverkefna við háskólann frá 2012. Hann starfaði sem sérfræðingur við Hagfræðistofnun frá 2007 til 2009. Daði Már var dósent í hlutastarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands 2006 til 2007, en á sama tíma var hann jafnframt ráðgjafi Bændasamtakanna. Árin 2005 til 2006 var hann í starfi dósents við Norwegian University of Life Sciences. 

Á árunum 2007 til 2013 hefur Daði Már átt sæti í ýmsum nefndum á vegum Háskóla Íslands, svo sem í samkennslunefnd, í heildarstefnuhópi og í kennslunefnd Félagsvísindasviðs. Daði Már hefur enn fremur setið í ýmsum nefndum utan Háskóla Íslands, svo sem fagráði Rannís (formaður), veiðigjaldanefnd, nefnd um endurskoðun aflareglu, nefnd um endurskoðun landgræðslulaga (formaður), nefnd um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, nefnd um rammaáætlun virkjana auk starfa fyrir vísindatímarit og rannsóknasjóði. 

Á árinu 2013 stýrir Daði Már auðlindahópi innan verkefnisstjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld. Þá hefur hann tekið þátt í fjölmörgum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum. 

Daði Már tekur við starfinu af Ólafi Þ. Harðarsyni prófessor í stjórnmálafræði. 

Dr. Jóhanna Einarsdóttir lauk doktorsprófi í menntunarfræðum ungra barna árið …
Dr. Jóhanna Einarsdóttir lauk doktorsprófi í menntunarfræðum ungra barna árið 2000 frá Háskólanum í Illinois í Bandaríkjunum, M.Ed. námi 1977 og BS-prófi 1976 frá sama skóla.
Dr. Daði Már Kristófersson lauk doktorsprófi frá Norwegian University of …
Dr. Daði Már Kristófersson lauk doktorsprófi frá Norwegian University of Life Sciences árið 2005, meistaraprófi í auðlindahagfræði frá Landbúnaðarháskóla Noregs árið 2000 og B.Sc.-prófi í landbúnaðarfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 1997.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert