Bílarnir af götunum í miðborginni

Sumargötur miðborgar Reykjavíkur voru formlega opnaðar í dag og bílarnir viku þar með fyrir gangandi vegfarendum. Nóg er um að vera í miðborginni alla helgina, m.a. stendur nú yfir Hátíð hafsins. Þá verður boðið upp á menningu og listir á hverju götuhorni.

Laugavegurinn er nú orðinn göngugata frá Vatnsstíg og Skólavörðustígur frá Bergstaðastræti og verður svo í sumar. Kvosin er að sama skapi mestmegnis tileinkuð gangandi og hjólandi vegfarendum líkt og undanfarin sumur.

Ný hjólahlið í sólblómagulum og tyggjóbleikum lit verða sett upp við sumargöturnar en þessir tveir litir urðu hlutskarpastir í litasamkeppni á Facebook-síðu Reykjavíkurborgar.

Nánar um uppákomur um helgina á Miðborgin okkar og Hátíð hafsins

mbl.is