Stefna vegamálastjóra vegna Álftanesvegar

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir hafa stefnt vegamálastjóra fyrir hönd Vegagerðarinnar, til viðurkenningar á því að framkvæmd sú um gerð Álftanesvegar milli Hafnarfjarðarvegar og Bessastaðavegar um þvert Gálgahraun, sem Vegagerðin auglýsti með útboði hinn 7. ágúst 2012 sé ólögmæt.

Skúli Bjarnason, hrl. og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, hdl., lögmannsstofunni Málþingi ehf., reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, f.h. samtakanna, segir í fréttatilkynningu.

 Í tilkynningunni kemur fram að um prófmál sé að ræða varðandi rétt umhverfisverndarsamtaka og hópa til að láta reyna á fyrir dómi lögmæti framkvæmda sem raskað geta ósnortinni náttúru og valdið óafturkræfum náttúruspjöllum. 

 Þá kemur fram að deilur hafi staðið um lagningu nýs Álftanesvegar milli Hafnarfjarðarvegar og Bessastaðavegar í nokkur ár. Deilurnar hafa snúist um það hvort leggja skuli hluta hins nýja vegar yfir ósnortið hraun – Gálgahraun í landi Garðabæjar, en hraunið er á náttúruminjaskrá.

Bent er  á að forsendur fyrir framkvæmdinni hafi gjörbreyst frá upphaflegri áætlun. „Byggðaþróun hefur orðið með allt öðrum hætti en spáð var og ekkert útlit er fyrir að þar verði stórfelldar breytingar í bráð sem kalli á viðlík náttúruspjöll. Yfirvöld í Garðabæ og Vegagerðin hafa hins vegar staðið þvert gegn formlegri endurskoðun framkvæmda og athugun á einfaldari, náttúruvænni og ódýrari kostum. Viðhorf almennings og réttarþróun hafa sömuleiðis breyst verulega á þeim rúmu 11 árum sem liðin eru frá endanlegri útgáfu umhverfismats,“ segir í tilkynningunni.

 Stefnendur telja að útboð það um veginn sem auglýst var 7. ágúst 2012 hafi verið ólöglegt þar sem bæði framkvæmdaleyfi og umhverfismat hafi verið útrunnin, en engar framkvæmdir hafi hafist á gildistíma þeirra. Því þurfi að taka málið upp að nýju og setja í löglegan farveg. Ekki hefur enn verið skrifað undir verksamning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert