Níumenningarnir fá ekki bætur

Frá aðgerðum lögreglu í Gálgahrauni.
Frá aðgerðum lögreglu í Gálgahrauni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hæstiréttur Íslands hafnaði í dag bóta­kröfu Ómars Ragn­ars­son­ar fjöl­miðlamanns og átta annarra vegna hand­töku þeirra í Gálga­hrauni við Garðabæ fyr­ir rúm­um þremur árum. Fólkið neitaði að verða við til­mæl­um lög­reglu um að yf­ir­gefa svæði í hraun­inu þar sem fyr­ir­hugaðar voru vega­fram­kvæmd­ir.

Staðfestir Hæstiréttur þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem komst að sömu niðurstöðu fyrir ári síðan.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að í fyrri dómum réttarins hefði því verið slegið föstu að vegaframkvæmdirnar hefðu átt sér viðhlítandi lagastoð og hefði lögreglu því borið að ljá Vegagerðinni aðstoð til að tryggja framkvæmd þeirra og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar voru til þess að tryggja allsherjarreglu. Var talið ljóst af gögnum málsins að fólkið hefði ekki sinnt ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að víkja af vinnusvæðinu og hefði þannig leitast við að hindra lögmæta vegarlagningu.

Níumenningunum er gert að greiða íslenska ríkinu 100.000 krónur hver í málskostnað, samtals 900.000 krónur.

mbl.is