Hraunavinir krefjast skaðabóta

Tíu Hraunavinir hafa höfðað skaðabótamál á hendur ríkinu vegna meðferðar sem þeir hlutu þegar lögreglumenn handtóku það í tengslum við mótmæli í Gálgahrauni í október á síðasta ári. Hver og einn fer fram á tvær milljónir króna í miskabætur.

Málið var þingfest í september í Héraðsdómi Reykjaness og fyrsta fyrirtaka málsins fer þar fram eftir hádegi í dag. 

Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lögmaður tíumenninganna, segir í samtali við mbl.is, að fólkið hafi verið handtekið og vistað í fangaklefa í fyrra. „Þau höfðuðu mál á hendur ríkinu vegna þessara meintu ólögmætu aðgerða gegn þeim.“

Aðspurð segir Ragnheiður að Hraunavinirnir hafi orðið fyrir andlegu áfalli. „Þetta er andlegt áfall fyrir fólk að lenda í þessu; ef maður er handtekinn, snúinn niður og maður látinn dúsa í fangaklefa fyrir það nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn til friðsamlegra mótmæla. Það er mjög alvarlegt mál.“

Hún bætir við að lögreglan geti ekki gefið fyrirmæli sem stangast á við rétt borgaranna til friðsamlegra mótmæla. Aðgerðir lögreglu hafi því verið ólögmætar og bakað ríkinu skaðabótaskyldu.

Spurð hvort fólkið hafi hlotið varanlega líkamlega áverka eða örorku í kjölfar handtökunnar, segir Ragnheiður að svo hafi ekki verið. Einhverjir hafi aftur á móti kennt sér meins í kjölfar handtökunnar og fengið áverkavottorð hjá lækni.

Fólkið sem krefst skaðabóta er ekki hluti af þeim níu sem hlutu dóm í Héraðsdómi Reykjaness í síðasta mánuði. Þeir voru dæmdir fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu um að flytja sig um set og voru þeir dæmdir til að greiða 100.000 kr. hver í sekt til ríkissjóðs. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert