Voldugar Sækýr synda Ermarsund

Sækýrnar. Kristín Helgadóttir, Sigrún Þuríður Geirsdótir, Birna Hrönn Sigurjónsdóttir, Ragnheiður …
Sækýrnar. Kristín Helgadóttir, Sigrún Þuríður Geirsdótir, Birna Hrönn Sigurjónsdóttir, Ragnheiður Valgarðsdóttir, Anna Guðrún Jónsdóttir og Kristbjörg Rán Valgarðsdóttir Arngrímur Sigmarsson

„Sjórinn hefur verið að kalla meira og meira á okkur og finnum við sífellt stærri verkefni,“ segir Ragnheiður Valgarðsdóttir, sjósundskona úr sundhópnum Sækýrnar. Hópurinn hyggst þreyta boðsund yfir Ermarsundið og halda þær af stað til Dover á Englandi í nótt. Með í för verður fararstjóri, sem einnig er reynd sjósundskona, og sú áttunda ætlar að vinna heimildamynd um afrek kvennanna.

Nái hópurinn markmiði sínu verða þær fyrsti íslenski boðsundshópurinn, sem stendur aðeins saman af konum, sem lýkur þessum merka áfanga. Sækýrnar stefna að því að bæta um betur og synda einnig til baka, ef aðstæður leyfa.

Sjósundið kemur blóðrásinni af stað

Sækýrnar hafa allar stundað sjósund um árabil. Konurnar sex eru á aldrinum 40 til 50 ára. Undanfarin ár hafa þær tekist á við hinar ýmsu áskoranir í sundinu og leita sífellt á nýjar slóðir í von um að ljúka fleiri áföngum. „Við höfum verið að synda yfir firði og út í eyjar síðustu ár,“ segir Ragnheiður. Þær hafa til að mynda synt boðsund upp á Akranes, yfir Eyjafjörðinn og út í Hrísey, Bessastaðasundið og út í Grímsey.

„Við stundum sjósund allan ársins hring, alveg frá mínus einni gráðu upp í fimmtán gráður,“ segir Ragnheiður. Marga hryllir eflaust við kuldanum í sjónum og kjósa heldur upphitaðar laugar eða heita potta. En hvað er það sem fær konurnar til að stinga sér aftur og aftur til sunds í söltum og köldum sjó?

„Sjósundið gerir svo margt fyrir mann,“ segir Ragnheiður. Hún tekur dæmi um hlaupara sem hleypur alltaf á hlaupabretti innanhúss en kemst loksins út og hleypur um í náttúrunni. „Þetta er svipað með sjósundið,“ bætir hún við. „Maður er í góðum tengslum við náttúruna.“

Sjósundið er sagt vera gott bæði fyrir líkama og sál og tekur sundkonan knáa undir það. „Sjósundið kemur blóðrásinni af stað,“ segir hún. „Maður tæmir hugann í sjónum og getur ekki annað en verið glaður.“

Kuldi, myrkur og trédrumbar í sjónum

Hópurinn mun mæta ýmsum áskorunum á leiðinni og verður álagið bæði andlegt og líkamlegt. „Við munum takast á við strauma við Frakklandsstrendur, kulda, myrkur, báta og skipaumferð,“ segir Ragnheiður. Eflaust muna þær mæta sjávardýrum en hún segir að þau muni líklega ekki verða Sækúnum til ama. „Ógnin stafar frekar af því sem rekur um í sjónum, trédrumbum eða öðru sem maður getur rekist á.“

Liðstjóri hópsins mun reka hópinn áfram. „Við reynum að hafa gaman að þessu, þetta á að vera skemmtiferð,“ segir Ragnheiður. „Við erum miklir húmoristar og gerum stólpagrín hver að annarri.“ Sækýr eru sjávardýr og eru að sögn Ragnheiðar feitar kýr sem synda mjög hratt í sjónum. „Okkur fannst þetta líkjast okkur,“ segir hún. „Við erum voldugar konur sem geta það sem þær vilja.“

Ætla að synda báðar leiðir

Hópurinn flýgur út í nótt, aðfaranótt fimmtudags, og hefst sundréttur kvennanna á laugardaginn og stendur yfir í viku. Lagt verður af stað frá ströndum Dover í Frakklandi um leið og færi gefst. Ragnheiður reiknar með því sundið taki 16 til 17 klukkustundir. Hópurinn ætlar þó ekki að láta sér nægja að synda yfir Ermarsundið.
„Ef veðrið verður enn gott þegar við komum að Frakklandsströndum, þá ætlum við að snúa við.“

Nokkrir Íslendingar hafa reynt við Ermarsundið. Benedikt Hjartarsson náði áfanganum fyrstur Íslendinga í júlí 2008 og í fyrra synti fyrsta íslenska boðsundssveitin yfir, en í henni voru fimm karlmenn og ein kona. Nái Sækýrnar markmiði sínu, verða þær fyrsti íslenski boðsundshópurinn sem stendur aðeins saman af konum sem ljúka áfanganum. Stytta leið yfir Ermarsundið er frá borginni Dover í Englandi til Calais á Frakklandi, eða um 34 kílómetrar. 

Allur ágóði af sundi hópsins fer til styrktar MS félaginu og hvetur Ragnheiður landsmenn til að leggja hönd á plóg. Tekið er á móti frjálsum framlögum og geta áhugasamir lagt inn á reikning 0515-14-407491, kt. 551012-0420.

Sækýrnar. Ragnheiður Valgarðsdóttir, Sigrún Þuríður Geirsdóttir, Anna Guðrún Jónsdóttir, Birna …
Sækýrnar. Ragnheiður Valgarðsdóttir, Sigrún Þuríður Geirsdóttir, Anna Guðrún Jónsdóttir, Birna Hrönn Sigurjónsdóttir, Kristín Helgadóttir og Kristbjörg Rán Valgarðsdóttir Arngrímur Sigmarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert