Jóhann G. látinn

Jóhann G. Jóhannsson.
Jóhann G. Jóhannsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hinn landskunni tónlistarmaður Jóhann Georg Jóhannsson er látinn, 66 ára að aldri, eftir baráttu við illvígan sjúkdóm.

Með honum er genginn einn ástsælasti laga- og textahöfundur landsins, en eftir hann liggja hundruð laga og texta sem hann, ásamt fjölmörgum helstu flytjendum landsins, söng og lék inn á hljómplötur. Hann stofnaði hljómsveitina Óðmenn á sjöunda áratugnum, lék síðan með fjölmörgum hljómsveitum öðrum ásamt því að vera í fylkingarbrjósti þeirra sem stofnuðu SATT, Samtök alþýðutónskálda og textahöfunda og síðar FTT, Félag tónskálda og textahöfunda árið 1983. Hann var heiðursfélagi FTT.

Hann stofnaði ásamt fleirum tónleikastaðinn Púlsinn við Vitastíg og rak um árabil, hann stjórnaði eigin upptökum og annarra ásamt því að sinna útgáfustarfsemi.

Jóhann G. var einnig afkastamikill myndlistarmaður og hélt fjölda einkasýninga ásamt því að taka þátt í samsýningum.

Börn Jóhanns eru fimm, barnabörnin þrettán og barnabarnabörnin tvö. Sambýliskona hans eftirlifandi er Halldóra Jónsdóttir.

Útförin verður auglýst síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert