Tveggja manna trúfélag á Íslandi

Múslimar á Íslandi
Múslimar á Íslandi Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Félag Ahmadiyya-múslima hefur fengið leyfi hjá Reykjavíkurborg til þess að breyta herbergjum kjallaraíbúðar við Kirkjuteig í bænaherbergi og samkomustað trúfélagsins.

Í félaginu voru sex meðlimir þegar mest var, en nú hafa bæði þýsk og sænsk hjón sem í því voru flutt aftur til heimalands síns og meðlimir safnaðarins eru því tveir í dag.

Mansoor Malik er forstöðumaður trúfélagsins og vonast til að söfnuðurinn muni stækka. „Ég vil að allt sé gert lögum samkvæmt og sótti því um leyfi fyrir bænaherberginu, þó að þetta verði vissulega fámenn samkoma. Hugsunin er að stækka við okkur og því er gott að bænaherbergið sé skráð.“

Í dag hittist söfnuðurinn á heimili Malik, en hann segir að gott verði að fá sérstakt bænaherbergi sem þeir geti innréttað þannig að henti starfseminni. „Þetta verður gott í bili, ef söfnuðurinn stækkar þannig að húsnæðið verður of lítið munum við ef til vill hugsa um að reyna fá mosku.“

Malik flutti frá London til Íslands í mars síðastliðnum, en hann er trúboði á vegum Ahmadiyya-safnaðarins. Hann rekur bóksölu í Kolaportinu og kynnir boðskap trúarinnar með þeim hætti. Ahmadiyya-múslimar telja Mizra Ghulam Ahmad hafa verið spámann, en hann var uppi á 19. öld og kom því á eftir Múhammeð. Megintrú múslima er hins vegar að Múhameð sé síðasti og mesti spámaðurinn. Ahmadyyia-múslimar eru um 16 milljónir og Malik segir trúboða frá félaginu vera í yfir 200 löndum. Höfuðstöðvar safnaðarins eru í London, þaðan sem hann var sendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert