Ísjaki í Fljótavík

Þessi myndarlegi ísjaki sást í Fljótavík á Hornströndum. Landhelgisgæslan segir að jakinn hafi strandað, hann sé botnfastur og byrjaður að brotna. Hún tekur fram að engin bráð hætta sé á ferðum og að ekkert hafi sést til hvítabjarna.

Smærri brot eru í kringum jakann.

Ágætis veður er á þessum slóðum og skyggni gott að sögn Gæslunnar. Þá eru nokkrir bátar á siglingu.

Landhelgisgæslunni berast reglulega hafístilkynningar en alls bárust tilkynningar um fimm ísjaka í morgun.

Undanfarna daga hafa borist tilkynningar um hafís norðnorðvestur af Hornbjargsvita. TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, fór í eftirlits- og hafísflug um Vestfirði og Húnaflóa sl. þriðjudag. Mjög stór ísjaki sást þá um 11,6 sjómílur austur af Hornbjargsvita. 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur sent út siglingaviðvaranir til sjófarenda en ísjakarnir sjást vel á ratsjá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert