Norðurljósadýrð á Fáskrúðsfirði

Norðurljós yfir Fáskrúðsfirði þriðjudagskvöldið 28. ágúst 2013.
Norðurljós yfir Fáskrúðsfirði þriðjudagskvöldið 28. ágúst 2013. Ljósmynd/Jónína Óskarsdóttir.

„Við nutum glæsilegs sjónarspils í eina og hálfa klukkustund,“ segir Jónína Óskarsdóttir, áhugaljósmyndari á Fáskrúðsfirði. Í gærkvöldi voru mjög góðar aðstæður til að fylgjast með norðurljósum í firðinum og þurfa íbúar ekki að leita langt til að komast frá ljósmengun bæjarins.

Að sögn Jónínu var þetta líklega eitt af fyrstu kvöldunum í haust sem hægt hefur verið að njóta norðurljósasýningar á borð við þessa á Fáskrúðsfirði. Hún er áhugaljósmyndari og hefur sérstaklega gaman af því að mynda norðurljósin. „Ég hef ekki séð svona litríkar myndir hjá öðrum í haust,“ segir Jónína.

Kjöraðstæður í september og október

„Það var mjög mikil virkni í gærkvöldi og í nótt,“ segir Þórður Arason, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Svo hægt sé að njóta norðurljósadýrðarinnar með góðu móti þarf að vera nokkuð léttskýjað. Aðstæður til norðurljósaskoðunar hafa að sögn Þórðar ekki verið góðar á höfuðborgarsvæðinu síðastliðna daga en léttskýjað hafi verið yfir Austfjörðum í gærkvöldi og því hafi myndast góðar aðstæður.

Aðspurður segir Þórður að nú fari norðurljósatíminn að hefjast. Norðurljósin eru vissulega til staðar allt árið en kjöraðstæður myndist á haustin, í september og október. „Það er meiri virkni í kringum jafndægur á hausti og vori,“ segir hann.

Hægt er að fylgjast með norðurljósaspánni á vef Veðurstofunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina