Þjórsárver friðlýst bráðlega

Frá Þjórsárverum.
Frá Þjórsárverum. Brynjar Gauti

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði á Alþingi í dag að það styttist í að hann skrifi undir friðlýsingu Þjórsárvera. Ekki hafi verið hægt að klára málið í sumar þar sem ekki hafi allir verið með á hreinu hvar mörkin á friðlandinu eiga að liggja. Bráðlega verði hægt að skrifa undir.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði ráðherra út í málið og vísaði í viðtal sem tekið var við Sigurð Inga og birtist í Morgunblaðinu. Þar kom fram að hann teldi almenna sátt um verndun Þjórsárvera. Henni hefði svo borist til eyrna að búið væri að fara yfir þær athugasemdir sem gerðar voru og spurði hvenær standi þá til að ljúka málinu.

Sigurður Ingi sagðist engan hafa hitt sem telji að ekki beri að friðlýsa Þjórsárverin. Það sé markmiðið að undirrita friðlýsinguna en hann vilji þó ekki gefa út neina tímasetningu. Athugasemdirnar hafi verið reistar á ákveðnum rökum og leysa þurfi úr þeim vanda sem upp kom. Unnið sé að því í ráðuneytinu og hann geri ráð fyrir að vinnunni ljúki fyrr en seinna.

Katrín spurði þá öðru sinni og þá hvort hann sjái nokkuð því til fyrirstöðu að friðlýsingin verði undirrituð bráðlega. „Það má fullyrða að það er hægt að gera það bráðlega,“ sagði Sigurður Ingi þá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert