Haldið undir skírn í eigin brúðkaupi

Jóhann Issi Hallgrímsson.
Jóhann Issi Hallgrímsson. Ljósmynd Bjarni Sigurðsson

Á dögunum voru hjón gefin saman í Grindavíkurkirkju, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi, en þegar þau voru við það að ganga úr kirkjunni eftir athöfnina spruttu tveir menn á fætur, gengu að brúðgumanum, lyftu honum upp, báru hann að skírnarfontinum og héldu honum undir „skírn“ á meðan presturinn skvetti yfir hann vatni.

Þakið var við það að rifna af, svo mikill var hláturinn, að sögn brúðgumans.

„Málið er það að ég var skírður í höfuðið á manni sem hét Jóhann Þorgrímur. Hann var kallaður Grímsi og þegar mamma var lítil kallaði hún hann alltaf Issa, því hún gat ekki sagt Grímsi. Nafnið festist við hann og þegar ég fæddist um það leyti sem hann dó var ákveðið að skíra mig í höfuðið á honum, Jóhann Þorgrímur Hallgrímsson. Þetta er náttúrlega mjög stórt og mikið nafn fyrir lítinn mann og ég hef alltaf verið kallaður Issi.

Eftir að ég varð eldri fór þetta að þvælast fyrir mér, Jóhann eða Issi, og því ákvað ég að skipta um nafn. Það var heljarinnar vesen að fara í gegnum mannanafnanefnd og fleira en svo fékk ég þetta loks í gegn.“

Til móts við óskirnar

Jóhann segir að í kjölfarið hafi hann þurft að vinna í því að fá sr. Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur, sem gifti þau Hjördísi Guðmundsdóttur, á sitt band fyrir brúðkaupið. Hann hafi viljað verða skírður á ný og notað þau rök að hann þyrfti að skipta um öll skilríki vegna nýja nafnsins.

„Hún hló að mér og sagði að þetta virkaði ekki alveg svona,“ segir hann. Hún hafi hins vegar ákveðið að koma til móts við óskirnar.

„Við héldum þessu leyndu á milli okkar hjónakornanna og hennar, en ég fékk tvo fílhrausta vini mína til þess að aðstoða okkur við þetta og halda á mér og öll kirkjan hreinlega sprakk úr hlátri, þegar þeir báru mig að skálinni og héldu mér þar undir „skírn“.

Séra Jóna sagði að hún mætti ekki skíra mig en hún mætti skvetta á mig þannig að hún gerði það. Þetta var æðislegt, alveg eins og ég vildi hafa það. Fólkið hló svo mikið og þetta var svo gaman. Dagurinn gat ekki verið betri í alla staði.“

Jóhann Issi Hallgrímsson og eiginkona hans Hjördís Guðmundsdóttir
Jóhann Issi Hallgrímsson og eiginkona hans Hjördís Guðmundsdóttir Ljósmynd Bjarni Sigurðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »