Aðhaldsaðgerðir bitna ekki á LSH

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ástandið á Landspítalanum sé alvarlegt. Fyrri ríkisstjórn hafi skorið þar niður inn að beini en það sé ekki gert í fjárlagafrumvarpi næsta árs. „Það breytir því ekki að það er uppi alvarleg staða þar,“ segir Bjarni og bætir við hvernig menn geri það verði úrslausnarefni þingsins komandi mánaða og ára.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Bjarni telur mikilvægt að hagkerfið verði örvað til frekari vaxtar og þannig megi skapa ríkinu frekari tekjur. „Ég sé ekki fyrir mér að við hverfum frá þeim skattalækkunum sem eru í þessu frumvarpi, þvert á móti vildi ég frekar vilja skoða aðrar leiðir,“ sagði Bjarni.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, beindi fyrirspurn til Bjarna og hélt því m.a. fram að nýja frumvarpið virtist ekki njóta þingmeirihluta, þar sem forsætisráðherra og nokkrir stjórnarþingmenn hefðu tjáð sig opinberlega um málefni LSH og lýst sig andsnúna frekari niðurskurði þar. 

Þá spurði hann Bjarna hvort hann væri reiðubúinn að ræða við stjórnarandstöðuna um að falla frá þeim áformum um að minnka álögur á þá sem best séu færum til að borga, þannig að raunverulega sé hægt að mæta þörfum LSH fyrir auknar fjárveitingar.

Bjarni tók fram að frumvarpið hefði fengið góðan stuðning og undirtektir hjá báðum stjórnarflokkunum. „Það sem skilur þetta fjárlagafrumvarp frá fyrri fjárlagafrumvörpum er að samhliða því eru lagðar fram allar tekjuöflunarráðstafanir, þannig að við sjáum núna heildarmyndina og umræðan er að fara fram á grundvelli þess,“ sagði Bjarni. 

Hann sagði ennfremur, að það væri rétt að ríkisstjórnin hefði þurft að taka margar erfiðar ákvarðarnir við að koma fjárlagafrumvarpinu saman. „Aðhaldsaðgerðir í frumvarpinu eru upp á 12 milljarða; þær eru þó ekki að bitna á Landsspítalanum,“ sagði fjármálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert