Fangar verði ekki að holdanautum

Fangelsismálastjóri segir að fangelsismálayfirvöld muni halda uppi aga í fangelsum …
Fangelsismálastjóri segir að fangelsismálayfirvöld muni halda uppi aga í fangelsum með öllum löglegum ráðum. mbl.is/Bryjar Gauti

Fangelsismálastofnun hefur ákveðið að banna allar tölvur í fangelsum landsins þar sem fangar hafa ítrekað brotið reglur um tölvunotkun. Þá eru pakkasendingar til fanga nú aðeins leyfilegar á virkum dögum og loks íhuga fangelsismálayfirvöld að fjarlægja öll lóð úr fangelsum. „Okkar verkefni er ekki að skila mönnum út eins og holdanautum heldur sem bættum borgurum,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri, í samtali við mbl.is

„Þetta eru afleiðingar þess að brjóta reglur,“ segir hann um breytingarnar.

„Meginreglan er að allar tölvur eru og verða bannaðar, hvort sem það eru fartölvur eða borðtölvur. Þeir sem eru sannanlega í skóla geta sótt um fartölvur,“ segir Páll og bætir við að þessi breyting muni taka gildi 15. janúar nk. 

Páll bætir við að fangar í námi verði þá að sjá sjálfir um að útvega sér tölvur. Þær verða hins vegar teknar af þeim við innilokun, þ.e. frá kl. 22 á kvöldin til kl. 8 morguninn eftir.

Hafa brugðist trausti

„Fangar hafa, margir hverjir, verið að misnota tölvur, þ.e.a.s. nýtt sér þær til að komast á inn á Facebook og aðra samfélagsmiðla. Það er bannað. Það hefur ekki gengið að vísa til samvisku þeirra eða einhvers annars.“ Fangar hafa m.a. gerst sekir um að hafa í hótunum við fólk í gegnum netið og segir Páll að slíkt sé ólíðandi með öllu. Föngum hafi verið sýnt traust sem þeir hafa brugðist.

Páll segir að þessi breyting muni væntanlega koma niður á námi fanga, sem sé miður. Menn verði hins vegar að draga línuna einhversstaðar.

Hann segir aðspurður að það sé afar algengt að menn hafi notað borðtölvur til að smygla ýmsum hlutum inn í fangelsið, t.d. fíkniefnum eða netpungum til fanga. „Menn mega búast við strangari reglum framvegis ef vandamálið heldur áfram. Ef menn halda áfram að hegða sér illa þá verður bara tekið á því.“ 

Páll segir það rétt að allir fangar þurfi að líða fyrir brotin, en hann tekur fram að „tuttugu prósent agaviðurlaga í fangelsum, að minnsta kosti, er vegna þess að menn eru teknir með netpunga; þá er það stór hluti fanga sem er að brjóta af sér.“ Þar af leiðandi sé gripið til þeirra úrræða sem séu í boði lögum samkvæmt.

Aðeins tekið við pakkasendingum á virkum dögum

Þá hafa fangelsismálayfirvöld ákveðið að breyta reglum varðandi pakkasendingar til fanga. Nú má aðeins koma pökkum til þeirra á virkum dögum en ekki um helgar.

„Við erum í niðurskurðarfasa líkt og aðrar stofnanir og við þurfum okkar tíma til að fara í gegnum allar sendingar sem koma til fanga. Þannig að það tekur sinn tíma að fara inn,“ segir Páll og bætir við að mörg dæmi séu um að reynt sé að smygla fíkniefnum til fanga með pakkasendingum. Þessi breyting tók gildi fyrir nokkru.

„Okkar verkefni er að halda uppi aga í fangelsum landsins og við munum gera það með öllum löglegum ráðum,“ segir Páll.

Vilja ekki skila mönnum út eins og holdanautum

Loks eru fangelsismálayfirvöld með það til skoðunar að fjarlægja öll lóð úr fangelsum landsins, en fyrir tveimur árum voru öll laus lóð bönnuð. Það hefur vakið töluverða athygli að margir fangar hafa náð að byggja upp mikinn vöðvamassa er þeir eru á bak við lás og slá. Inn í þetta spilar notkun fanga á sterum, sem eru á meðal þeirra efna sem hafa verið smyglað til fanga.

„Okkar verkefni er ekki að skila mönnum út eins og holdanautum heldur sem bættum borgurum. Það er verkefni sem við erum að vinna í núna.“

Góð hegðun skilar sér

Sú gagnrýni hefur komið fram á meðal fanga að fangelsismálayfirvöld leggi meiri áherslu á refsingu heldur en betrun. Páll segir það rangt.

„Þeir sem hegða sér vel þeir fara úr lokuðu fangelsi í opið, úr opnu fangelsi á áfangaheimili og úr áfangaheimili í rafrænt eftirlit. Þannig að það er mikill hagur af því að fangar hegði sér eins og menn. Ef þeir gera það þá geta þeir svo sannarlega upplifað betrun; þeir þurfa bara að prófa það.“

Fangar hafa notað tölvur til að fara á samfélagsmiðla eins …
Fangar hafa notað tölvur til að fara á samfélagsmiðla eins og Facebook, og hafa m.a. birt myndir af sér sem voru teknar í fangelsinu. mbl.is/Ernir
Fyrir tveimur árum voru öll laus lóð fjarlægð úr fangelsum. …
Fyrir tveimur árum voru öll laus lóð fjarlægð úr fangelsum. Nú kemur til greina að engin lóð verði að finna í fangelsunum. mbl.is/Heiddi
mbl.is