Gagnrýndi viðbrögð við uppsögnum

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Ég verð líka að viðurkenna að viðbrögðin hér í þingsal komu mér nokkuð á óvart vegna þess að þetta er fjarri því eina stofnunin sem hefur verið skorið niður hjá undanfarandi ár. Ég man til dæmis ekki eftir því að hafa séð þingmenn hópast hér upp í ræðustól sérstaklega út af niðurskurði til lögreglunnar undanfarin ár. Ég man heldur ekki eftir því að sett hafi verið á stofn fésbókarsíða út af niðurskurði til lögreglunnar og ég man heldur ekki eftir því að menn hafi boðað til stuðningsfundar við lögreglustöðina. Ég man reyndar eftir áhlaupi á hana en ekki eftir stuðningsfundi.“

Þetta sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag vegna uppsagna á Ríkisútvarpinu sem tilkynnt var um í gær. Sagði hann það alvörumál þegar skera þyrfti niður í ríkisrekstri og þá skipti miklu hvernig það væri framkvæmt. Fréttir af málefnum Ríkisútvarpsins og viðbrögð við þeim yllu honum fyrir vikið nokkrum áhyggjum. Svo virtist sem ákvörðun stjórnenda stofnunarinnar hafi verið tilviljanakennd og átt sér stað með snöggum hætti.

„Heildarkostnaðurinn við rekstur Ríkisútvarpsins er í kringum 3 milljarða króna. Þar af eru launagjöld í kringum 2,2 milljarða. Ríkisútvarpið telur sig þurfa að skera niður um 500 milljónir króna en hagræðingarkrafan er 300 milljónir króna. Þetta eru allt saman tölur sem maður fær ekki alveg til að ganga upp. Ég hef satt að segja áhyggjur af því að menn hafi ekki lagt nógu ríka vinnu í að fara yfir rekstur Ríkisútvarpsins í heild áður en tilgreindar uppsagnir sem voru birtar í gær komu fram,“ sagði hann ennfremur.

Með ólíkindum að gagnrýna útvarpsstjóra

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, brást við ummælum Þorsteins og sagði með ólíkindum að ætla að saka forstöðumann ríkisstofnunar um að grípa til niðurskurðar þegar skilaboðin um hann kæmu frá ríkisvaldinu. „Ég verð að segja að ég fékk mikið sjokk þegar við fréttum af því hvernig ætti að fara með fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Við vorum í rauninni búin að sjá það en sáum það svo birtast í uppsögnum í gær. Þetta er dapurlegt núna þegar við erum að halda upp á 30 ára afmæli Rásar 2.“

Hann gagnrýndi harðlega hvernig staðið hefði verið að fjárlagagerðinni vegna Ríkisútvarpsins. „Þetta form á umræðu um fjárlög, um stofnun sem er með hundruð starfsmanna, að skilaboðin komi endalaust í gegnum einhvers konar valdboð, er fullkomlega óþolandi. Þetta verður að vinnast öðruvísi og það er ríkisstjórnin og þeir sem vinna þar sem í raun valda þessum usla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina