Heilbrigðiskerfið fram yfir þróunaraðstoð

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Til umræðu er í fjárlaganefnd Alþingis að lækka hámark vaxta- og barnabóta um samtals 600 milljónir króna og setja það fjármagn í staðinn í að styrkja heilbrigðiskerfið. Þá er einnig til skoðunar að lækka framlög til þróunaraðstoðar í sama tilgangi. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í sunnudagsþætti Gísla Marteins Baldurssonar í Ríkissjónvarpinu í dag.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, gagnrýndi þessar hugmyndir harðlega í þættinum og benti á að Íslendingar hefðu sett sér það markmið að standa jafnfætis öðrum vestrænum þjóðum varðandi þróunarhjálp. Þetta væri skref afturábak í þeim efnum. Forgangsröðunin væri skrítin enda væru Íslendingar þrátt fyrir allt rík þjóð en neyðin væri hins vegar mikil til að mynda í Afríku.

Bjarni benti á móti á að þótt þessar hugmyndir yrðu að veruleika væri ekki verið að hætta þróunaraðstoð. Þá lagði hann áherslu á að málið væri til umræðu innan fjárlaganefndar og ekki hefði verið endanlega gengið frá því.

mbl.is