Enn einn stormurinn á leiðinni

mbl.is/Ómar

Búist er við stormi (meðalvindi meira en 20 m/s) með suðurströndinni undir kvöld á morgun, samkvæmt viðvörun á vef Veðurstofu Íslands. Þar kemur fram að óvissustig er enn í gildi vegna snjóflóða á norðanverðum Vestfjörðum.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðan 5-13 m/s og dálítil él fyrir norðan og austan, en austlægari SV-til á landinu seint í kvöld með snjókomu þar. Vaxandi austan og norðaustanátt á morgun, 13-20 m/s undir kvöld, en 18-23 með suðurströndinni. Mun hægari vindur norðaustantil á landinu. Dálítil él með norður- og austurströndinin á morgun, annars yfirleitt úrkomulaust, en fer að snjóa syðst annað kvöld. Frost víða 0 til 6 stig, en 5 til 13 stig í innsveitum fyrir norðan og austan í nótt og á morgun.

Tilkynning Vegagerðarinnar frá því fyrr í dag um færð á vegum:

Það eru hálkublettir á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Suðurlandi.

Hálkublettir eða hálka eru á flestum vegum á Vesturlandi, þó snjóþekja frá Búðardal norður yfir Gilsfjörð. Þæfingsfærð er á Skarðsströnd en Fróðárheiði er þungfær.

Éljagangur eða skafrenningur er víða á Vestfjörðum og hálka eða snjóþekja. Á Ströndum er þungfært og skafrenningur úr Bjarnarfirði norður í Djúpavík en þæfingsfærð og skafrenningur þaðan í Gjögur.

Á Norðurlandi vestra er hálka og skafrenningur eða él. Það snjóar á Norðurlandi eystra og þar er víðast hvar snjóþekja á vegum. Ólafsfjarðarmúli er opinn en þar er þó ennþá óvissustig vegna snjóflóðahættu. Þæfingsfærð er á kaflanum um Hálsa og Hófaskarð.

Snjóþekja eða hálka er á flestum vegum á Austurlandi. Þungfært og skafrenningur er á Vatnsskarði eystra. Það er ansi hált frá Fáskrúðsfirði suður að Streiti en autt frá Djúpavogi með ströndinni suður um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert