Baltasar: „Ekki eyðileggja RIFF“

Leikstjórinn Baltasar Kormákur.
Leikstjórinn Baltasar Kormákur. mbl.is/Golli

Leikstjórinn Baltasar Kormákur er afar ósáttur við þá ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta beinum stuðningi við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík (RIFF).

„Mér finnst þetta skammarleg aðför að þessari hátíð, sem hefur ekki gert neitt annað en að breiða út fagnaðarerindið fyrir Reykjavíkurborg,“ segir Baltasar, sem á sæti í stjórn RIFF, í samtali við mbl.is.

Líkt og mbl.is hefur greint frá, fór menningar- og ferðamálaráð borgarinnar að tillögu Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) um að styrkja ekki RIFF á næsta ári. Lagði BÍL til að hátíðin Heimili kvikmyndanna skyldi fá átta milljónir á næsta ári.

„Ég vil að Besti flokkurinn sýni í verki að hann sé öðruvísi en aðrir pólitískir flokkar og viðurkenni að hann hafi gert mistök og bakki út úr þessu; þeir bæti í og geri vel við hátíðina,“ segir Baltasar og bætir við að hann vilji einnig sjá ríkið styðja við bakið á RIFF.

10 ára uppbyggingarstarf

Að baki RIFF liggi 10 ára uppbyggingarstarf sem nú sé verið að kasta á glæ. „Þeim [borgaryfirvöldum] hefði verið nær að leggja meira í hátíðina og gera þetta betur. Allar borgir með sjálfsvirðingu eru með góða kvikmyndahátíð -  sérstaklega höfuðborgir,“ segir Baltasar.

Hann bendir á að uppbyggingarstarfið hafi kostað mikla vinnu og tíma sem hafi skilað árangri, en hann bendir á að leikstjórar og listamenn á borð við Quentin Tarantino, Susan Bier, Costa-Gavras og Milos Forman hafi verið gestir RIFF.

Þá segir Baltasar að Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, hafi fengið Helgu Stephenson , sem er ein af stofnendum kvikmyndahátíðarinnar í Toronto, til ráðgjafar í tengslum við RIFF auk annarra sérfræðinga.

„Svo eru allt í einu einhverjir krakkar í Bíó Paradís sem eru betur liðin, og þá er sagt að umsóknin þeirra hafi verið betur unnin. Þetta er svo fáránlegt. Þú ert með tíu ára sögu og þú tekur ekki ákvörðun um kvikmyndahátíð eins og um einhvern atburð sé að ræða sem sé metinn út frá listrænu gildi eða hversu áhugaverð umsóknin er. Í umsókninni liggur 10 ára saga.“

Ekki upplýst hvers vegna umsókn RIFF var hafnað

Baltasar segir borgaryfirvöld skýla sér á bak við álit BÍL, en hann segir að það hafi aldrei verið greint nánar frá því hvað þar komi fram.

Einar Örn Benediktsson, formaður menningar- og ferðamálaráðs, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði, að ráðið hefði eingöngu farið eftir tillögum faghóps Bandalags íslenskra listamanna um styrkveitingar til menningarmála fyrir næsta ár en hann skipa Gunnar Hrafnsson, Ólöf Nordal, Randver Þorláksson, Magnea J. Matthíasdóttir og Valdís Óskarsdóttir.

Gunnar Hrafnsson sagði í sömu frétt að faglegar forsendur hefðu legið að baki úthlutuninni en hann vildi ekki tjá sig sérstaklega um það af hverju umsókn RIFF var hafnað.

„Pólitískt sull“

Að sögn Baltasars hafa borgaryfirvöld verið með ýmiskonar dylgjur gagnvart Hrönn, t.d. um samstarfsörðugleika af því að hún vilji ekki semja við Bíó Paradís. „Það að blanda saman rekstri á kvikmyndahúsi og kvikmyndahátíð er alls ekki heppileg samsetning,“ segir hann.

„Þetta lítur allt út fyrir að vera einhverjar átyllur og afsakanir fyrir einhverju pólitísku sulli sem þeir [borgaryfirvöld] eru að standa fyrir.“

Aðspurður kveðst hann ósáttur við þau svör sem hann hafi fengið eftir samtöl við borgaryfirvöld í tengslum við málið. Svörin séu mjög loðin og persónuleg. Hann segir að Hrönn hafi brugðist við öllum athugasemdum sem hafa borist, m.a. um að styrkja stjórn RIFF, en Baltasar tók nýverið sæti í stjórninni.

Menn eiga að ræða málin og bæta samstarfið

„Ég hef staðið með Hrönn í gegnum þetta í 10 ár. Mér finnst þetta vera ómerkileg aðför að henni og hennar starfi,“ segir Baltasar.

„Þó að þetta sé eitthvað sem þeir [Reykjavíkurborg] eru ekki hundrað prósent sáttir við, ekki eyðileggja þetta. Menn eiga miklu frekar að setjast niður og ræða málin og bæta samstarfið,“ segir hann að lokum.

Frá setningu RIFF árið 2012.
Frá setningu RIFF árið 2012. mbl.is/Golli
Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.
Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF. mbl.is/Kristinn
Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Eggert
mbl.is