Gufubað í Vaðlaheiðargöngum

Hálfgerð gufubaðsstemning hefur verið í Vaðlaheiðargöngum í dag að sögn Valgeirs Bergmanns Magnússonar, framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga hf., en heitt vatn hefur streymt úr borholum sem gerðar voru fyrir sprengiefnið sem notað er til þess að sprengja bergið. Heitast var það 43-46 gráður og sáu Akureyringar gufuský stíga upp frá göngunum og frá sjónum fyrir neðan þangað sem vatnið rann.

„Þetta er í raun ekkert heitara en við bjuggumst við en þetta er að koma fyrr. Við vissum alveg að því innar sem við kæmum í fjallið því heitara yrði vatnið enda gerðu jarðfræðirannsóknir ráð fyrir því. En þetta er ekkert óeðlilegt við jarðgangagerð. Hins vegar er þetta mikið vatn sem kom okkur dálítið á óvart þar sem búið var að gera könnunarholu áður og þá kom ekkert vatn,“ segir hann.

Aðspurður segir hann að þetta hafi hægt aðeins á starfseminni en ekki alvarlega. Það setji ennfremur ekkert strik í reikninginn enda hafi vinnan við Vaðlaheiðargöng gengið til þessa betur en gert hafi verið ráð fyrir og til að mynda verið mun minna vatn til þessa en gert hafi verið ráð fyrir. „En strákarnir hafa bara gaman af þessu og hafa farið úr að ofan. Þetta er svolítið eins og í heitum potti eða gufubaði. En síðan er þetta að róast núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert