Evrópusambandið vildi skýr svör

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er eðlilegt að kjósa um það hvort ríkisstjórn, sem er andvíg því að ganga í Evrópusambandið, eigi að halda viðræðum sínum við sambandið áfram eða slíta þeim. Þá hefur það komið skýrt fram í máli ráðamanna í Brussel, svo sem stækkunarstjórans, að ný ríkisstjórn þurfi að svara því hvort hún ætli að halda viðræðunum áfram eða hætta þeim. Ekki sé hægt að bíða lengur eftir skýrum svörum.

Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í Kastljósi á RÚV í kvöld.

Hann sagði það vera „algjörlega óraunhæft“ að ríkisstjórn sem væri andvíg aðild að sambandinu ynni að því að ganga í það. Slíkt væri óheiðarlegt gagnvart Evrópusambandinu.

Forsætisráðherrann sagði að það yrði einhvern tímann þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál, en einungis þegar aðstæður leyfðu það. 

„Ég er enn sömu skoðunar að það sé mjög mikilvægt að þjóðin hafi miklu meiri beina aðkomu að ákvörðunum en þær ákvarðanir þurfa að vera framkvæmanlegar,“ sagði hann.

„Þetta snýst um að taka afstöðu til ákvörðunar sem var tekin án aðkomu þjóðarinnar. Hún var ekki spurð þegar ákveðið var að sækja um,“ benti hann á.

Þá sagði Sigmundur það hafa verið mjög einfalt að semja um Evrópumálin við Sjálfstæðisflokkinn í viðræðunum um ríkisstjórnarmyndunina. „Enda féllu þau að stefnu flokkanna beggja,“ sagði hann.

Engin krafa hefði komið frá Sjálfstæðisflokknum um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort draga ætti umsóknina til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert