Óttast einangrun og hóta neitunarvaldi

ÍSlensk stjórnvöld hafa hótað því að beita neitunarvaldi gegn losunarkvótakerfi …
ÍSlensk stjórnvöld hafa hótað því að beita neitunarvaldi gegn losunarkvótakerfi Evrópusambandsins. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, telur ljóst að Íslendingar eigi oft ekki aðra samgöngukosti en flug. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensk stjórnvöld hafa hótað því að beita neitunarvaldi í sameiginlegu EES-nefndinni komi til þess að kerfi Evrópusambandsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda verði tekið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), án þess að Íslandi verði veittar undanþágur. Telja íslensk stjórnvöld hættu á að flugsamgöngur til og frá landinu skerðist til muna.

Þetta kemur fram í umfjöllun norska blaðsins Dagsavisen í dag.

Þar segir að íslensk stjórnvöld telji upptöku losunarkvótakerfisins hafa í för með sér aukna álagningu á flugsamgöngur sem kemur Íslandi sérstaklega illa vegna landfræðilegrar legu landsins. Í bréfi íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segja íslensk stjórnvöld að landið geti verið í hættu um að einangrast þar sem flug er oft eina tæka samgönguleiðin og mikilvæg tenging við umheiminn.

Íslensk stjórnvöld telja losunarkvóta hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samg0ngur til …
Íslensk stjórnvöld telja losunarkvóta hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samg0ngur til og frá landinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá sé í bréfinu bent á að tilskipun Evrópusambandsins mismuni flugi yfir Atlantshaf við millilendingu á Íslandi.

Flugferð sem hefst í Frankfurt og stoppar á Íslandi myndi í kerfi Evrópusambandsins þurfa að greiða fullt losunargjald fyrir legginn Frankfurt-Reykjavík þar sem flugið er innan Evrópska efnahagssvæðisins, en ekki er full gjaldskylda frá Reykjavík til New York. Á móti ef vélin flýgur beint til New York frá Frankfurt fær hún ekki fulla gjaldskyldu.

Þetta telja íslensk stjórnvöld verða til þess að flugfélög velji frekar að sleppa viðkomu á Íslandi.

Koma fólki í lestir

„Þetta bréf snýr eingöngu að flugsamgöngum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið í dag. „Tilgangur breytinganna er að beina fólki í lestir eða almenningssamgöngur í stað þess að fara í flug. Við Íslendingar erum aftur á móti með þá sérstöðu að við getum ekki nýtt aðra samgöngukosti en flug frá landinu.“

Þá segir hún jafnframt að engar umhverfisvænar lausnir séu í boði hvað flugvélaeldsneyti í lengri flugferðum varðar. „Þessi aðferðafræði bitnar því hlutfallslega verr á okkur en nokkru öðru landi.“

Komi til þess að gripið verði til neitunarvalds verður það í fyrsta sinn í sögu EES sem því er beitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert