Færeyingar studdu Íslendinga

Þórshöfn, höfuðstaður Færeyja.
Þórshöfn, höfuðstaður Færeyja. Ljósmynd/Erik Christensen

Færeyingar studdu Íslendinga í makríldeilunni en ágreiningur Íslendinga og Norðmanna reyndist hindrun. Þegar Færeyingar fengu boð um hlutdeild sína af makrílaflanum síðustu helgi voru þeir tilbúnir til samninga, að sögn Jacobs Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Samningar Færeyinga um skiptingu makrílaflans fela í sér tvíhliða samning um að Norðmenn megi veiða allt að 35% af makrílafla Færeyinga í færeyskri lögsögu og öfugt. Færeyingar eru langt komnir með samskonar samning við ESB og er hlutfall á gagnkvæmri veiði þar 30%. 

Samkvæmt samkomulagi Færeyja, ESB og Noregs munu Færeyingar geta veitt allt að 12,6% af heildarmakrílaflanum.

ESB setti í fyrra löndunarbann á Færeyjar vegna meintrar ofveiði á síld og segir Vestergaard aðspurður að Færeyingar muni nú setjast niður með fulltrúum sambandsins og ræða bannið. Hann vilji ekki tjá sig frekar um þann þátt málsins.

Vonar að samband ríkjanna verði áfram náið

„Samband Færeyinga og Íslendinga er mjög náið og ég vona að þessi niðurstaða, að Ísland standi utan samningsins, muni ekki hafa neikvæð áhrif á samskipti ríkjanna,“ sagði Vestergaard.

Hann sagðist aðspurður ekki telja að veiðar á makríl umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, sem hljóðar upp á 890.000 tonn í ár, muni hafa neikvæð áhrif á stærð makrílstofnsins.

En Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, lýsti í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku yfir áhyggjum af því að veiði umfram ráðgjöfina kynni að koma niður á makrílstofninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert