Ferðaþjónustan ósátt við gjaldtökuna

Nokkrir starfsmenn gæta hliðsins á Geysissvæðinu og rukka ferðamenn um …
Nokkrir starfsmenn gæta hliðsins á Geysissvæðinu og rukka ferðamenn um miða eða aðgangseyri. mbl.is/Golli

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður ferðaþjónustufyrirtækisins Iceland Excursions, segir að ferðaþjónustan í heild sé ósátt við gjaldtökuna við Geysissvæðið. Með gjaldtökunni sé verið að rukka inn á land í eigu annars aðila.

Í samtali við mbl.is bendir hann á að mjög lítill hluti af því svæði sem ferðamenn fara um tilheyri Landeigendafélaginu Geysi. Ríkið eigi nefnilega um 23 þúsund fermetra svæði í kringum hverina, „sem er aðdráttaraflið,“ að sögn Þóris.

Forsvarsmenn Iceland Excursions hafa tilkynnt landeigendum að fyrirtækið muni ekki taka gjald af sínum farþegum áður en þeir koma á Geysissvæðið, eins og beðið hafði verið um.

Vilja ekki innheimta í óvissu

Þórir segir að fyrirtækið vilji ekki standa í gjaldtöku fyrir landeigendur þegar vafi leikur á um lögmæti gjaldheimtunnar. Fyrirtækið geti ekki staðið í því og verið ábyrgt gagnvart öðrum ef gjaldtakan verði dæmd ólögleg.

Aðspurður segir Þórir að ferðamenn hafi fyrst og fremst verið undrandi á því að þurfa að greiða gjald til að komast inn á svæðið. „Orðspor Íslands ber það með sér að hér sé frjáls för og hér búi gestrisin þjóð. Því verða þeir undrandi yfir því að þurfa að taka upp veskið og borga.

Viðhorf ferðaþjónustufyrirtækjanna er það að á meðan óvissa ríkir um lögmæti gjaldsins þá geti þau ekki verið að rukka þetta gjald og standa skil á því til landeigenda,” segir Þórir.

Hann bætir því við að ferðamennirnir hafi verið upplýstir um það. „Síðan ráða þeir því bara sjálfir hvort þeir kjósa að borga.“

mbl.is