„Bjarney Hilma er kraftaverk“

Jóhannes Bjarnason og dóttir hans, Bjarney Hilma. Hún er á …
Jóhannes Bjarnason og dóttir hans, Bjarney Hilma. Hún er á áttunda ári, fæddist löngu fyrir tímann, var 680 grömm við fæðingu og vart hugað líf. Tvíburabróðir hennar fæddist andvana. Skapti Hallgrímsson

Tápmiklar stúlkur hlaupa um og kasta bolta á æfingu í KA-heimilinu á Akureyri. Jóhannes Gunnar Bjarnason, kennari, handboltaþjálfari og fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, þarf að benda á dóttur sína til að sá sem þetta ritar átti sig á því hver hún er. Sú stutta sker ekki úr hópnum. Fyrir liðlega sjö árum, þegar Bjarney Hilma fæddist, var henni hins vegar vart hugað líf; vó ekki nema 680 grömm enda fædd þremur og hálfum mánuði fyrir tímann. Tvíburabróðir hennar, Jóhannes Gunnar, fæddist andvana nokkrum vikum fyrr.

Kraftaverk

Jóhannes og eiginkona hans, Kristín Hilmarsdóttir, gengu í gegnum miklar hremmingar eins og nærri má geta.

Kristín hafði farið í allar hefðbundnar skoðanir og allt var með felldu þar til dag einn, 16. júlí 2006, á 18. viku meðgöngu, að hún missti vatnið að öðru barninu.

Kvensjúkdómalæknir var ræstur út á Sjúkrahúsinu á Akureyri og Jóhannes segir ekki mikla bjartsýni hafa verið ríkjandi. „Læknirinn sagði að fóstrið kæmi líklega fljótlega – jafnvel strax – og maður skynjaði á starfsfólkinu að í vændum væri mikið áfall. Að nú fæddust líklega tvö andvana börn. En fyrsta kraftaverkið af nokkrum var það að drengurinn kemur ekki fyrr en eftir ríflega þrjár vikur og hjálpaði systur sinni í raun með því. En þegar hann fæddist reiknuðum við með, miðað við andlegan undirbúning, að skellurinn yrði tvöfaldur. Að hitt barnið kæmi strax á eftir, eins og langalgengast er í tilfellum sem þessu.

Við höfðum ákveðið að ef þetta færi svona myndum við skíra börnin í höfuðið á okkur og hann heitir Jóhannes Gunnar. Þegar farið var með hann í líkhúsið var hugsun mín sú að eftir að stúlkan væri fædd myndu þau hvíla saman. En fyrir annað kraftaverk fæddist stúlkan ekki strax. Okkur hafði verið sagt að 24 vikur væri lágmarkstími til að lífslíkur væru bærilegar þannig að vonin jókst á hverjum einasta degi; hver dagur var mikilvægur og allir voru þeir lengi að líða.“

Hjónin voru lögð inn á kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri. „Þar lá ég í 40 daga, þar til 26. ágúst. Daginn áður hófust miklar blæðingar hjá konunni minni – á 23. viku – en þegar þær hættu og barnið kom samt ekki var ákveðið að senda okkur með sjúkraflugi suður.

Í millitíðinni hafði ég farið í gegnum þá erfiðu athöfn með fósturdóttur minni og séra Jónu Lísu Þorsteinsdóttur að jarðsetja drenginn; það var gríðarlega erfið stund, ekki síst fyrir konu mína því hún gat ekki verið viðstödd. Mátti ekki hreyfa sig úr rúminu. Ég fæ aldrei fullþakkað Jónu Lísu fyrir það hvernig hún lóðsaði mig í gegnum þessar ömurlegu aðstæður. Það er örugglega henni og Ingibjörgu Jónsdóttur yfirljósmóður að þakka að ég var lagður inn á fæðingardeild en ekki aðra, ónefnda deild á spítalanum. Það var ótrúlega mikill styrkur að þeim.“

Þegar til Reykjavíkur kom lögðust bæði hjónin inn á kvensjúkdómadeild á ný. „Ég skal hundur heita ef einhver karl hefur lengið lengur á kvennadeild en ég!“ segir Jóhannes í gríni.

Fæddist á 25 viku

Þegar Kristín var gengin 24 vikur og fimm daga sér læknir við skoðun að fæðing er að hefjast.

„Litla krílið neitaði reyndar að koma út; var þversum og læknirinn þurfti að beita handafli til að ná þessum 680 grömmum í heiminn. Á lífsmarksskalanum, sem er frá 0 til 10, skoraði Bjarney Hilma 1,0 við fæðingu og ég gat ekki betur séð en hún væri dáin.“

Þegar Kristín fór í aðgerð eftir fæðinguna sat Jóhannes frammi á gangi og segist hafa verið nánast úti á þekju. „Ég hefði sennilega ekki ratað út úr húsinu þótt ég hefði reynt. Þá kemur Hróðmar Helgason hjartalæknir, þessi mikli snillingur, og fer með mig inn á vökudeild. Hann gaf mér reyndar fyrst kaffibolla og það met verður aldrei slegið sem sá bolli gerði mér. Öll lyfjaflóran hefði sennilega ekki haft jafn mikil áhrif.“

Útskrifuð á aðfangadag, daginn sem hún átti að fæðast á

Þegar þeir komu inn á vökudeild hafði dóttir Jóhannesar verið tengd við alls kyns vélar. Stúlkan var blá og marin á höfði, öxl og hendi, vegna þess hve læknirinn hafði þurft að taka hraustlega á henni í fæðingunni. „Ég verð að viðurkenna að mín fyrstu viðbrögð voru þau að ég hugsaði um hve mikið hún yrði skert, ef hún myndi þá lifa þetta af.“

Stúlkan fæddist 6. september, rúmlega hálfum fjórða mánuði á undan áætlun. Hún átti að fæðast á aðfangadag, en þannig vildi til að hún var útskrifuð af Landspítalanum þann dag.

Jóhannes segir Kristínu konu sína hafa verið töluverðan tíma að jafna sig. „Hún var búin að liggja mánuðum saman og ég þurfti eiginlega að hjálpa henni að læra að ganga upp á nýtt. Það var heilmikið mál fyrir gamla Andrésar andar meistarann á skíðum og fimleikadrottninguna fyrrverandi. En það hjálpaði henni reyndar örugglega hve vel hún var á sig komin.“

Spítalinn útvegaði hjónunum íbúð skammt frá stofnuninni „og við vorum í mat hjá systur minni sem býr þar stutt frá. Stína gat mjólkað sig þannig að barnið fékk móðurmjólk með öllum þeim bæti- og næringarefnum sem brjóstamjólkin gefur og það hefur örugglega átt stóran þátt í því að Bjarney hafði sig í gegnum þetta.“

Stúlkan veiktist nokkrum sinnum en Jóhannes segir lækna hafa fylgst vel með og ætíð brugðið skjótt við. „Erfiðasti hjallinn var vegna þess að lungun tóku ekki nógu vel við sér. Við vorum kölluð á fund og sagt að eini möguleikinn væri að taka nokkra áhættu; að setja stúlkuna á sterameðferð sem myndi hjálpa lungnablöðrunum að þroskast en það gæti líka haft neikvæð áhrif ef það mistækist. Það var ekki um neitt að velja; við urðum að taka áhættuna og lungun tóku kipp.“

Mikill sigur að losna við öndunarvélina

Jóhannes segir það hafa verið gífurlegan sigur þegar dóttir hans losnaði úr öndunarvélinni en í kjölfarið hófst vinna við að þyngja hana því enn var hún var mjög lítil. Hann tekur af sér giftingarhringinn til að útskýra stöðuna fyrir blaðamanni: „Þessi komst utan um fótinn á henni og upp að nára.“

Fjölskyldan fékk að fara af Landspítalanum á aðfangadag, daginn sem stúlkan átti að fæðast. „Það var einhver eftirminnilegasta stundin í öllu þessu ferli, þegar við fórum út af spítalanum; úr örygginu sem læknar og hjúkrunarfræðingar veittu okkur; þetta stórkostlega teymi sem skipar eina bestu vökudeild heims. Fyrstu nóttina í íbúðinni var maður skelfingu lostinn: gat ekki sofið og starði bara á barnið!“ Þau voru svo endanlega útskrifuð skömmu áður en árið rann sitt skeið og nutu áramótanna á Akureyri.

„Fyrstu tvö eða þrjú árin óttaðist maður alltaf að eitthvað væri að; trúði því varla að þessi litli líkami starfaði eðlilega. Sjón, heyrn, hreyfigeta, greind...Endalaust er hægt að telja upp það sem líklegt er að geti komið fyrir þessi börn. En nú er hún á áttunda ári, er mjög hraust, stundar íþróttir af kappi og gengur mjög vel að lesa og reikna. Ef einhver hefði sagt mér þegar ég sá dóttur mína fyrst að rúmum sjö árum síðar myndi henni ganga mjög vel í skóla, æfði tvær til þrjár íþróttagreinar, léki sér við vinkonur sínar eins og hver önnur og væri orðin betri í tölvunni en pabbi hennar, hefði ég talið þann mann galinn. Þetta er samt staðan í dag; Bjarney Hilma er sjö ára, tápmikil stelpa. Hún er eitt stórt kraftaverk og hefur verið allt frá 16. júlí 2006 til dagsins í dag.“

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri, sem Jóhannes G. Bjarnason veitir formennsku, afhentu stofnuninni formlega 35 glæný sjúkrarúm í síðustu viku.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »