Gangur í viðræðum en boðað til verkfalls

Ljóst er að til verkfalls mun koma ef samningar nást …
Ljóst er að til verkfalls mun koma ef samningar nást ekki fyrir 25. apríl. nk. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samningafundi í kjaraviðræðum Félags háskólakennara við ríkið er lokið í húsi ríkissáttasemjara en hann hófst klukkan hálf 11 í morgun. Helsta niðurstaða fundarins var sú að lögð var fram vinnuáætlun þar sem kemur fram að verið sé að taka á málunum af fullum krafti. Þó er ljóst að boðað hefur verið til verkfalls frá 25. apríl nk. Þetta sagði Jörundur Guðmundsson, formaður Félags háskólakennara, í samtali við mbl.is eftir fundinn.

Meirihluti háskólakennara greiddi atkvæði með verkfalli í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun um miðjan síðasta mánuð og munu 920 kennarar, prófessorar og annað háskólamenntað stjórnsýslufólk við HÍ leggja niður störf á lögbundnum prófatíma dagana 25. apríl til 10. maí nk, hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma.

Líta svo á að þegar hafi verið boðað til verkfalls

mbl.is hefur áður greint frá því að samninganefnd Félags háskólakennara hafi frest til miðnættis í kvöld til að boða verkfall, en samkvæmt upplýsingum frá Jörundi lítur samninganefndin svo á að boðað hafi verið til verkfalls um leið og verkfallsheimildin var samþykkt af félagsmönnum, þ.e. um miðjan mars sl. 

Því hefur verið boðað til verkfalls og ljóst að ef samningar nást ekki fyrir samþykktan tíma, þá mun starfsfólkið leggja niður störf á prófatíma. 

Einnig hefur verið greint frá því á mbl.is að kjaraviðræðunni hafi ekki formlega verið vísað til ríkissáttasemjara. Aðspurður segir Jörundur að það sé vegna þess að gangurinn í deilunni sé á þann veg að samninganefndin telji ekki ástæðu til að vísa kjaradeilunni þangað.

„Það er mikill gangur í þessu og allir að reyna að gera það sem þeir geta,“ sagði Jörundur í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka