Segjast ákærð fyrir að fara að lögum

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari ásamt aðstoðarmönnum.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari ásamt aðstoðarmönnum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Hann er algerlega saklaus í þessu máli,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun í aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn skjólstæðingi hans, Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands. Engin sönnunargögn gæfu minnsta tilefni til þess að hann væri sekur.

Sigurjón er sakaður um umboðssvik með því að hafa haft frumkvæði að því í lok september 2008 að bjóða Ímon, félagi í eigu Magnúsar Ármanns, að kaupa rúmlega 4% hlut í Landsbanka Íslands á sögulega lágu markaðsgengi fyrir rúmlega 5 milljarða króna með láni frá bankanum. Einni er ákært vegna láns til félagsins Azalea Rescources í eigu Ari Salmivouri, finnsks fjárfestis og viðskiptafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, upp á 3,8 milljarða króna. Sigurður sagði málið hafa komið til vegna ákafa Magnúsar til þess að kaupa hlutinn og þess að Salmivouri taldi sig hafa innherjaupplýsingar um að skandinavísku löndin myndu koma Landsbanka Íslands til bjargar.

Með Sigurjóni eru ákærð í málinu Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður fyrirtækjasviðs, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar. Sigurjón, Elín og Steinþór eru ákærð fyrir markaðsmisnotkun og Sigurjón og Elín um umboðssvik. Telur sérstakur saksóknari að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til þess að láta líta út fyrir að eftirspurn væri eftir bréfum í Landsbanka Íslands.

Engar athugasemdir frá innra eftirliti

Sigurjón sagði fyrir dómi að út í hött væri að saka hann um umboðssvik í málinu fyrir að hafa ekki borið umrætt lán undir bankaráð Landsbanka Íslands. Vísaði hann í að samkvæmt starfsreglum bankans hafi einu lánin sem borin væru undir bankaráðið lán sem sneru að eigendum bankans. Hvað útlánareglur bankans varðaði hafi þær verið settar af honum og Halldóri J. Kristjánssyni, hinum bankastjóra bankans, og samþykktar af bankaráði. Þær reglur veittu bankastjórum mjög mikið svigrúm í þeim efnun. Hvað þessi viðskipti varðar hafi hann aðeins komið að ákvörðun um lánið. Lánið til Salmivouri hafi hins vegar ekki komið inn á hans borð.

Hins vegar hafi að ekki verið svo að bankastjórar hafi verið ofan í öllum málum í smáatriðum. Hann hafi samþykkt lánið til Ímon enda hefði hann metið það svo að það væri í hag Landsbanka Íslands. Enda hefðu verið lagðar fram fullnægjandi tryggingar að hans mati. Bæði bréfin í bréfin í bankanum og bréf Ímon í Byr þar sem félagið hafi verið stærsti eigandinn. Ímon hafi staðið vel á þeim tíma. Spurður af Arnþrúði Þórarinsdóttur saksóknara hvort lánið hefði verið veitt ef ekki hefði verið um að ræða hluti í Landsbanka Íslands sagðist Sigurjón að það hefði ekki verið gert í því tilfelli.

Sigurjón sagði ap hann væri í raun ákærður fyrir það eitt að fara að lögum og reglum líkt og hann hefði gert í öllum sínum störfum. Umrædd viðskipti hafi farið nákvæmlega fram í samræmi við lög og reglur. Hann benti ennfremur á að viðfemt innra eftirlit hefði verið til staðar innan Landsbanka Íslands með aðkomu fjölda fólks. Ef staðið hefði verið óeðlilega aðmálum hefðu átt að hafa komið athugasemdir frá þessum aðilum en ekkert slíkt hefði hins vegar borist.

Aldrei séð jafn innihaldsrýra ákæru

Verjandi Elínar, Helga Melkorka Óttarsdóttir hæstaréttarlögmaður, sagði að sönnunarfærsla í málinu gegn skjólstæðingi hennar væri mjög ábótavant. Þá væri ekki séð að-gætt hefði verið að grundvallarréttindum hennar þegar kæmi að málshraða en málið hefði verið um fimm ár í rannsókn. Lagði hún áherslu á að Elín hafi ekki gerst sek um annað en að sinna starfi sínu í góðri trú. Hún hefði ekki aðhafst í eigin þágu heldur einungis unnið að hagsmunum bankans.

Verjandi Steinþórs, Lárentsínus Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, sagði erfitt að átta sig á því hvað skjólstæðingur hans væri ákærður fyrir. Hann hefði óskað eftir fundi hjá sérstökum saksóknara til þess að fá nánari upplýsingar um það en ekki fengið. Hann væri fyrir vikið litlu nær. Líkt og verjendur Sigurjóns og Elínar lagði Lárentsínus áherslu á að skjólstæðingur sinn væri ákærður fyrir það eitt að fara að lögum. Hann hafi ekkert frumkvæði haft að umræddum viðskiptum.

Lárentsínus sagði Steinþór aðeins hafa miðlað bréfunum í Landsbanka Íslands og þegar viðskiptin hafi verið komin á hafi hann tilkynnt það til Kaupkallarinnar í samræmi við lög og reglur. Rétt eins og í fjölda annarra sambærilegum málum. Ef bankinn hefði ekki fallið hefðu viðskiptin verið kláruð með sama hætti og önnur. „Þetta eru nákvæmlega eins mál.“ Sagðist hann aldrei á 30 ára lögmannsferli hafa séð eins innihaldsrýra ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert