Tekist á um réttaráhrif endurupptökunefndar

Verjendurnir Sigurður G. Guðjónsson og Helga Melkorka Óttarsdóttir ásamt Sigurjóni …
Verjendurnir Sigurður G. Guðjónsson og Helga Melkorka Óttarsdóttir ásamt Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, í Hæstarétti í dag. mbl.is/Þorsteinn

Hæstiréttur ætti að vísa frá báðum endurupptökumálunum sem tengjast stjórnendum gamla Landsbankans þar sem réttaráhrif af ákvörðunum endurupptökunefndar ganga í berhögg við lög um meðferð sakamála og að ekki sé hægt að endurupptaka mál að nýju nema fyrri dómur hafi verið ógiltur.

Þetta kom fram í máli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara fyrir réttinum í dag, en þar tókst hann á við Sigurð G. Guðjónsson og Helgu Melkorku Óttarsdóttir, verjendur fyrrverandi stjórnenda bankans, þeirra Sigurjóns Þorvaldar Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs. Þá kom einnig fram að Sigurjón hefði ekki hafið afplánun sína, en hann hefur hlotið samtals fimm ára dóma.

Grundvallarregla sem þarf að viðhafa

Sagði Helgi skýrt að réttaráhrif fyrri dóms í málinu, þar sem þau Sigurjón og Sigríður Elín voru sakfelld fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun, væru enn til staðar. Sagði hann að réttaráhrifin féllu ekki niður fyrr en nýr dómur hefur fallið og með hliðsjón af 186. grein í lögum um meðferð sakamála geti dómurinn ekki tekið sama málið upp aftur meðan fyrri réttaráhrif væru til staðar.

Í fyrrnefndri grein kemur meðal annars fram að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis í Hæstarétti og að krafa sem hafi verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dóm. Skuli nýju máli um slíka kröfu vísað frá dómi. Benti Helgi á að ákvörðun endurupptökunefndar, sem hann nefndi ítrekað „stjórnsýslunefnd úti í bæ“, hefði engin réttaráhrif á fyrri dóm. Aðeins Hæstiréttur gæti ógilt fyrri dóm og þangað til þyrfti að vísa málum sem þessum frá dómi. Sagði Helgi jafnframt að ekki ætti að vera hægt að byrja mál að nýju þegar dómur hafi fallið nema í undantekningartilfellum. Þetta væri grundvallarregla sem þyrfti að viðhafa.

„Hljómar kannski eins og orðhengilsháttur

„Þetta hljómar kannski eins og orðhengilsháttur,“ sagði Helgi við dóminn og bætti við að lögin yrðu samt að gilda. Sagði hann jafnframt að ekki ætti að „halda lífi“ í því hvernig búið væri um endurupptökunefnd í lögum „með þessum reddingum“, heldur þyrfti Hæstiréttur að stíga niður „og bara að segja það“.

Sigurður, verjandi Sigurjóns, var vitanlega ekki sammála þessari túlkun Helga og sagði að endurupptökunefnd væri ekki að hefja málsmeðferð að nýju, heldur hefði hún verið að meta hvort skilyrði til að hefja nýja málsmeðferð væru til staðar. „Og hér kom fram að svo væri,“ sagði hann.

Dómstólsins að taka endanlega ákvörðun

Sigurður sagði að líkt og þrískipting valds í stjórnkerfinu leggi upp með sé það dómstólsins að ákveða hvort skilyrði séu fyrir endurupptöku eða ekki og það væri það sem málið í dag snerist um og að ekki ætti að vísa málinu sjálfkrafa frá.

Í fyrra málinu, svokölluðu Ímon-máli, voru bæði Sigurjón og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, sakfelld fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Fékk Sigurjón 3,5 ára dóm en Sigríður Elín 18 mánaða dóm. Í seinna málinu, svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans, var Sigurjón, ásamt þremur öðrum starfsmönnum deildar eigin fjárfestinga, fundinn sekur um markaðsmisnotkun. Hlaut Sigurjón þar 18 mánaða dóm í Hæstarétti og var þar með kominn upp í fimm ára refsihámark.

Endurupptökunefnd féllst í maí í fyrra á beiðni Sigurjóns um að taka málin upp. Var í niðurstöðu nefndarinnar byggt á því að einn þáverandi hæstaréttardómari, Viðar Már, hafi átt hlutabréf í Lands­bank­an­um á þeim tíma sem meint brot áttu sér stað og því hefði hann verið van­hæf­ur í mál­inu. Það skal þó tekið fram að nefnd­in slær því ekki föstu hvort hags­mun­ir Viðars Más hafi haft áhrif á dómsniður­stöðuna, en að draga megi óhlut­drægni dóms­ins í efa. Kem­ur fram að hann hafi keypt bréf í bank­an­um fyr­ir 15 millj­ón­ir og að „telja verður að þeir fjár­mun­ir sem fóru for­görðum hjá dóm­ar­an­um hafi verið slík­ir að at­vik eða aðstæður voru til að draga óhlut­drægni dóm­stóls­ins með réttu í efa“. Fyrir réttinum í dag kom hins vegar fram að Viðar hafi samtals keypt bréf fyrir 16 milljónir í bankanum.

Ekki orsakasamhengi milli gjaldþrots og brota stjórnendanna

Fleiri atriði voru dregin fram af bæði ákæruvaldi og verjendum um af hverju vísa ætti málinu frá eða að fá heimild til endurupptöku. Eitt vakti nokkra athygli í salnum í dag, en Helgi sagði í málflutningi sínum að þegar hæfi Viðars til að dæma væri metið þyrfti að hafa í huga að ekki væri orsakasamhengi á milli þess að bankinn hefði farið á hausinn og þeirra brota sem tekin væru fyrir í þeim málum sem nú væri tekist á um. Sagði hann að jafnvel þótt áhrifin gætu hafa verið einhver hefði á þessum tíma verið alþjóðakrísa í gangi og ekki væri hægt að halda því fram að farið hafi eins og fór fyrir bankanum út af þessum tveimur málum. Reyndar mætti halda því fram að stjórnendur bankans hafi reynt allt sem þeir gátu til að halda bankanum á lífi með að halda gengi hans upp, jafnvel þótt í því hafi falist ólögleg markaðsmisnotkun. Því telur Helgi þetta ekki hafa áhrif á hæfi dómarans, jafnvel þótt fall bankans hefði kostað Viðar bréf sem hann keypti á 16 milljónir.

Sigurður svaraði því til að sérstakt væri að heyra saksóknara segja að áhrifin af brotum Sigurjóns og Elínar væru engin og vilja áfram að fyrri dómur gilti. Eftir dómhaldið sagði hann við mbl.is að allt málið væri byggt upp á því að þau hefðu með ólögmætum og saknæmum hætti bakað hluthöfum, stórum og smáum, tjón. „Núna virðist liggja fyrir yfirlýsing saksóknara um að svo hafi ekki verið,“ segir Sigurður. Segir hann sérkennilegt að ákæruvaldið berjist gegn því að málið verði endurupptekið „en lýsa svo yfir að menn séu ekki sekir um ásetning“ og þannig koma í veg fyrir að hægt væri að sýkna í málinu.

Nauðsynlegt að tryggja traust almennings á dómtólum

Helga fór í málflutningi sínum yfir nauðsyn þess að tryggja traust almennings á dómstólum og sérstaklega í málum þar sem réttmætrar tortryggni gæti gætt. Þegar bankinn féll árið 2008 var Viðar prófessor við Háskóla Íslands og tók Helga sérstaklega fram að það breytti engu um ásýnd málsins hvort Viðar hafi verið dómari við réttinn þegar „tjónið varð“ eða ekki. Þá tók hún jafnframt fram að ekki þyrfti að sýna fram á að vanhæfi hafi haft áhrif á niðurstöðuna þegar ákvörðun væri tekin um endurupptöku.

Sigurjón ekki enn hafið afplánun

Við málflutninginn kom einnig fram í máli Sigurðar að vegna endurupptökumálsins hafi Fangelsismálastofnun fallist á að fresta refsingu Sigurjóns og hefur hann því ekki enn hafið afplánun þeirra fimm ára sem hann var dæmdur í. Fyrir nokkrum árum kom hins vegar fram í fjölmiðlum að Sigríður Elín hefði afplánað sinn dóm.

186. gr. laga um meðferð sakamála

  • Dómur er bindandi um úrslit sakarefnis fyrir ákærða, ákæruvaldið og aðra um þau atriði sem þar eru dæmd að efni til.
  • Krafa sem dæmd hefur verið að efni til verður ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en í lögum þessum segir. Nýju máli um slíka kröfu skal vísað frá dómi.
  • Dómur er bindandi fyrir dómara þegar hann hefur verið kveðinn upp. Dómara er þó heimilt að leiðrétta ritvillur, reikningsskekkjur, nafnskekkjur og aðrar bersýnilegar villur í dómi, enda láti hann aðilum sem hafa fengið endurrit af dómi í té nýtt endurrit án tafar.
  • Dómur hefur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað.
mbl.is