Viðar Már var á meðal 50 stærstu hluthafa bankans

Verjendurnir Sigurður G. Guðjónsson og Helga Melkorka Óttarsdóttir ásamt Sigurjóni …
Verjendurnir Sigurður G. Guðjónsson og Helga Melkorka Óttarsdóttir ásamt Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, í Hæstarétti í dag. mbl.is/Þorsteinn

Viðar Már Matthíasson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt, var á meðal 50 stærstu hluthafa Landsbankans þegar bankinn féll og hafði hann keypt hlutabréf upp á tæplega eina milljón króna í febrúar á árinu 2008, sem ekki hafði verið greint frá áður. Hafði hann því keypt í bankanum fyrir samtals um 16 milljónir þegar bréfin urðu verðlaus í október 2008.

Þetta kom fram í málflutningi fyrir Hæstarétti í dag, en þar var tekist á um hvort taka ætti upp tvö svokölluð hrunmál þar sem stjórnendur Landsbankans höfðu verið dæmdir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í aðdraganda falls bankans.

Í fyrra málinu, svokölluðu Ímon-máli voru bæði Sigurjón og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, sakfelld fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Fékk Sigurjón 3,5 ára dóm en Sigríður Elín 18 mánaða dóm. Í seinna málinu, svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans, var Sigurjón, ásamt þremur öðrum starfsmönnum deildar eigin fjárfestinga, fundinn sekur um markaðsmisnotkun. Hlaut Sigurjón þar 18 mánaða dóm í Hæstarétti og var þar með kominn upp í fimm ára refsihámark.

Endurupptökunefnd féllst í maí í fyrra á beiðni Sigurjóns um að taka málin upp. Var í niðurstöðu nefndarinnar byggt á því að einn þáverandi hæstaréttardómari, Viðar Már, hafi átt hlutabréf í Lands­bank­an­um á þeim tíma sem meint brot áttu sér stað og því hefði hann verið van­hæf­ur í mál­inu. Það skal þó tekið fram að nefnd­in slær því ekki föstu hvort hags­mun­ir Viðars Más hafi haft áhrif á dómsniður­stöðuna, en að draga megi óhlut­drægni dóms­ins í efa. Kem­ur fram að hann hafi keypt bréf í bank­an­um fyr­ir 15 millj­ón­ir og að „telja verður að þeir fjár­mun­ir sem fóru for­görðum hjá dóm­ar­an­um hafi verið slík­ir að at­vik eða aðstæður voru til að draga óhlut­drægni dóm­stóls­ins með réttu í efa“.

Köfuðu ofan í málið og fundu bréf upp á 990 þúsund

Fyrir réttinum í dag upplýsti Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari um að hlutabréfaeign Viðars væri í raun meiri en komið hefði fram. Hafi þetta komið í ljós eftir að Sigurjón benti á að útreikningar um hlutabréfaeign Viðars gengju ekki upp. Var þá kafað dýpra ofan í málið og kom í ljós að Viðar hafði ekki bara keypt bréf árið 2007 eins og hann hafði áður greint frá, heldur hafði hann keypt bréf fyrir 990 þúsund krónur í febrúar 2008. Benti Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns, á að með þessu hefði Viðar keypt bréf í bankanum á sama tímabili og ákært var fyrir markaðsmisnotkun.

Þrátt fyrir hlutabréfaeignina tók Viðar sæti í dóminum og taldi sig ekki vanhæfan. Fyrr á þessu ári komst svo Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á Sigríði Elínu við málsmeðferð Ímon-málsins. Féllst Mannréttindadómstóllinn á að hlutabréfaeign Viðars hafi verið það mikil að hægt væri að taka undir með Sigríði Elínu að seta hans í dóminum valdi hlutdrægni. Átti Viðar samkvæmt dóminum 428 þúsund hluti í bankanum, sem nú hefur komið í ljós að eru nær 462 þúsund hlutum, en verðmæti hlutanna 428 þúsund var um 8,5 milljónir miðað við síðasta skráða gengi bankans.

Hins vegar taldi Mannréttindadómstóllinn að hlutabréfaeign Eiríks Tómassonar, annars Hæstaréttardómara í málinu, upp á 87 þúsund hluti að verðmæti 1,7 milljónir við fall bankans, hafi ekki verið veruleg og að hún valdi ekki vafa um hlutleysi dómsins.

Jafngilti árslaunum Viðars

Sigurður sagði í málflutningi sínum að til að setja upphæðina í samhengi hefðu tekjur Viðars á því tímabili sem hann tapaði hlutabréfunum verið um 16 milljónir fyrir skatt og 11 milljónir eftir skatt. Starfaði hann þá sem prófessor við Háskóla Íslands. „Það var því um verulegt fjárhagstjón að ræða,“ sagði Sigurður og spurði í kjölfarið hvort það væri trúverðugt að dómari sem tapaði árslaunum sínum sitji í dómi þar sem því er haldið fram að lánveitingar Sigurjóns og Sigríðar Elínar hafi verið ólögmætar og valdið hluthöfum, stórum og smáum, verulegu fjárhagstjóni.

Meðal 50 stærstu 

Skúli Magnússon, héraðsdómari og setudómari við Hæstarétt í þessu máli, spurði Helga við málflutninginn út í gögnin sem ákæruvaldið setti fram. Vakti hann athygli á því að vísað væri í skjal sem heitir „50 stærstu“ þegar hlutabréfaeign Viðars var skoðuð. Spurði hann hvort skilja mætti það sem svo að Viðar hafi verið einn af 50 stærstu hluthöfum bankans.

Helgi svaraði því til að svo væri og að Helgi hafi jafnframt verið í hópi 1% af stærstu hluthöfum bankans. Staðfesti hann svo að hlutirnir væru um 462 þúsund en ekki 428 þúsund eins og áður hafði komið fram. Hafi í greinargerð verjanda Sigurjóns til endurupptökunefndar verið vakin athygli á ónákvæmum útreikningum. „Við fórum að gramsa í þessu og þetta kom þá í ljós,“ sagði Helgi.

Tók Helgi fram að Viðari hafi verið boðið að skýra þetta misræmi, en að hann hafi ekki talið þess þurfa. Hann hafi á sínum tíma verið að rifja upp gömul mál.

Skúli spurði jafnframt um hvort saksóknari væri með nákvæma tölu um hverjir hagsmunir dómara hefðu verið þegar hann keypti hlutina og svo þegar þeir töpuðust. Helgi sagði svo ekki vera, en að Viðar hafi keypt fyrir 990 þúsund í febrúar 2008. Kom síðar við málflutninginn fram að við fall bankans hafi verðmæti hlutanna verið um 685 þúsund krónur.

Dóm­ar­ar í mál­un­um tveimur þegar þau voru tek­in fyr­ir árin 2015 og 2016 voru Markús Sig­ur­björns­son, Ei­rík­ur Tóm­as­son, Helgi I. Jóns­son og Viðar Már Matth­ías­son, sem all­ir dæmdu í báðum mál­un­um. Þá var Þor­geir Örlygs­son dóm­ari í Ímon-mál­inu og Gunn­laug­ur Claessen í markaðsmis­notk­un­ar­mál­inu. Enginn þeirra er nú starfandi hæsta­rétt­ar­dóm­ari né kemur að því að dæma mál­in að nýju í ár.

Aðeins einn nú­ver­andi hæsta­rétt­ar­dóm­ari dæmir málin núna, en það er Karl Ax­els­son. Aðrir dóm­ar­ar eru þau Garðar Gísla­son og Ingi­björg Bene­dikts­dótt­ir, sem bæði eru fyrr­ver­andi hæsta­rétt­ar­dóm­ar­ar. Þá dæma einnig þeir Sím­on Sig­valda­son, dóm­stjóri við Héraðsdóm Reykja­vík­ur, og Skúli Magnús­son, héraðsdóm­ari við sama dóm­stól, í mál­un­um.

mbl.is