Árangurslaus samningafundur sjúkraliða

Frá verkfallsmiðstöð sjúkraliða.
Frá verkfallsmiðstöð sjúkraliða. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Engin lausn náðist í kjaradeilu Sjúkraliðafélags Íslands og SFR við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu á fundi sem lauk síðdegis í dag. Sjúkraliðar leggja því niður störf í annað sinn, milli 8 og 16 á morgun.

Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir að samninganefnd þeirra hafi lagt fram hugmynd, sem virtist koma til greina að skoða, en eftir stutta stund hafi hin samninganefndin komið aftur og ýtt henni út að borðinu með þeim orðum að baklandið vildi ekki ræða á þessum nótum.

Aðspurð segist Kristín því ekki koma með nokkurn skapaðan hlut út af fundinum í dag. „Þetta er svipað dæmi og um daginn þegar samninganefndin þeirra kom með tillögu sem við vorum tilbúin að ræða en stuttu síðar komu þau til baka og sögðust ekki hafa heimild til að leggja fram þessa tillögu.“

Kristín segir svo virðast vera sem að þeir sem ekki sitji við samningaborðið séu ekki tilbúnir að taka við nokkrum hlut sem rætt sé á fundum. „Það er auðvelt að vera víðsfjarri og segja nei við öllu. Persónulega undrast ég þolinmæði þessarar samninganefndar gagnvart þessu.“

Áherslur sjúkraliða eru sem fyrr að þeirra fólk hafi sambærileg kjör og ríkisstarfsmenn, að sögn Kristínar. Þau fyrirtæki og stofnanir sem verkfallið á morgun nær til eru:

Ás Hvera­gerði, Dal­bær, Eir, Grund, Hlévang­ur, HNLFÍ, Horn­brekka, Hrafn­ista Reykja­vík, Hrafn­ista Hafn­ar­f­irði, Hrafn­ista í Kópa­vogi, Hrafn­ista Reykja­nesi, Kumb­ara­vog­ur, Lund­ur, Mörk, SÁÁ, Sjálfs­bjarg­ar­heim­ilið, Skjól, Skóg­ar­bær, Sól­tún og Sunnu­hlíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert