Áhrifin hríslast um allt samfélagið

Vísir hefur ákveðið að hætta starfsemi sinni á Djúpavogi.
Vísir hefur ákveðið að hætta starfsemi sinni á Djúpavogi. Sunna Ósk Logadóttir

Um helmingur starfsmanna Vísis á Djúpavogi, eða um 30 manns, hefur lýst áhuga á að flytja til Grindavíkur og hefja þar störf fyrir fyrirtækið. Sumir hafa þegar tekið ákvörðun um að flytja og hafa jafnvel tekið tilboði um atvinnu í Grindavík fagnandi. Aðrir hafa ákveðið að búa áfram fyrir austan, þrátt fyrir að óvissan sé mikil um hvað taki við þegar Vísir hættir þar starfsemi. Í dag fór hópur starfsmanna í boði fyrirtækisins í vettvangsferð til Grindavíkur. Eftir þá heimsókn munu hlutirnir skýrast. Velji starfsmennirnir að flytja býðst Vísir m.a. til að aðstoða við búslóðarflutningana.

Þegar svo stórt fyrirtæki, í um 470 íbúa sveitarfélagi, ákveður að flytja starfsemina í burtu, hríslast áhrifin um allt samfélagið. Breytingin snertir ekki aðeins starfsmenn Vísis og fjölskyldur þeirra heldur einnig alla verslun og þjónustu. Börnum í skólunum mun fækka. Færri munu taka upp veskið í kaupfélaginu. Draga mun úr verkefnum iðnaðarmanna sem þar búa. Bæjarbragurinn mun breytast.

Vísir hefur rekið fiskvinnsluna á staðnum í fimmtán ár. Starfsmennirnir eru fimmtíu talsins og á aldrinum 17-68 ára. Margir þeirra eru með langa starfsreynslu. Sumir eru frá Djúpavogi, aðrir aðfluttir. Stjórnendur Vísis segja að ekki verði pakkað saman einn daginn og skellt í lás. Vonast þeir til þess að næstu mánuði verði áfram vinna í fiskvinnslunni fyrir um 25-30 manns, allt þar til skýrist hvað taki við. En ákvörðunin stendur: Það mun koma að því að Vísir segi skilið við Djúpavog.

Engin töfralausn

Sjávarútvegsráðherra ákvað í vikunni að auka aflaheimildir sveitarfélaga í vanda, m.a. á Djúpavogi. Sveitarstjórnin á eftir að fara yfir þá niðurstöðu en segir hana þó í engu samræmi við kröfur hennar.

Íbúar á Djúpavogi eru margir hverjir slegnir yfir tíðindunum. Þeir spyrja hvað taki við og benda á að ferðaþjónustan, þrátt fyrir að vera vaxandi í bænum, sé engin töfralausn. Vonast þeir til að annað fyrirtæki sjái hag í því að halda áfram fiskvinnslu í bænum. Ekkert fyrirtæki hefur þó enn sem komið er lýst yfir áhuga á slíku.

Djúpavogsbúar eru þó þekktir fyrir annað en að leggja árar í bát þótt á móti blási. Þeir hafa gripið til nýstárlegra aðferða til að koma sínum málstað á framfæri. Meðal þess sem unnið er að er kynningarmyndband um Djúpavog. „Snúum vörn í sókn og sýnum úr hverju við erum gerð,“ segir í frétt um kvikmyndagerðina á heimasíðu hreppsins.

Rúmlega 150 íbúar í sveitarfélaginu hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um að tryggja og treysta byggð þar til framtíðar. Undirskriftirnar verða afhentar forsætisráðherra á morgun.

„Ég verð að komast af“

„Það var ekki auðvelt að ákveða að flytja frá Djúpavogi til Grindavíkur,“ segirDeliaHomecilloDicdican, starfsmaður Vísis á Djúpavogi. Hún er í hópi þeirra starfsmanna fyrirtækisins sem hafa ákveðið að taka tilboði um vinnu í Grindavík og flytjast þangað búferlum. „Mér þykir vænt um Djúpavog. Hér á ég vini. Þegar ég flyt þarf ég að byrja upp á nýtt. Það er ekki einfalt.“Delia vinnur langan vinnudag og stólar á tekjur sem hún fær fyrir yfirvinnu til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Hún segist hafa fengið vilyrði frá Vísi um að hún verði ekki fyrir tekjuskerðingu við flutninginn.

Allt breyttist

Delia flutti til Djúpavogs frá Filippseyjum fyrir fimmtán árum. Hún hefur allan þann tíma unnið hjá Vísi. Eiginmaður hennar og tvö börn urðu eftir í heimalandinu en hún heimsótti þau á hverju ári. Fyrir þremur árum breyttist þó allt. Eiginmaður hennar lést og hún vildi því fá börnin hingað. Það tók sinn tíma. Það var ekki fyrr en í fyrra að Útlendingastofnun gaf sitt leyfi fyrir komu þeirra og fluttu þau beint til Djúpavogs og hófu að vinna hjá Vísi. Þau eru nú 16 og 17 ára, sonurinn Judel og dóttirin Jade Marie. Delia hefur mikinn metnað fyrir hönd barna sinna og vill að þau gangi menntaveginn. Hún segir hins vegar dýrt, sérstaklega þegar einstætt foreldri á í hlut, að senda börn sín í skóla. Því verði þau að vinna um hríð og safna sér pening.

Delia hefur aldrei komið til Grindavíkur. Hún þekkir engan sem býr þar. „Ég tek ákvörðunina um að flytja með framtíð barnanna minna í huga. Draumur minn er að koma þeim í háskóla.“

Hún segir það hafa verið mikil viðbrigði fyrir börnin að flytja til Íslands. Djúpivogur sé lítill bær en smám saman fóru þau að kunna betur við sig. Þau hafa einnig ákveðið að halda áfram að vinna fyrir Vísi í Grindavík. „Kannski verður líf okkar betra í Grindavík,“ segir hún.

Delia mun líklega flytja í ágúst, á meðan lokað er hjá Vísi á Djúpavogi vegna sumarfría. „Þetta er stór ákvörðun. Og ég er hrædd því að ég er einstæð móðir. En ég verð að flytja til að komast af. Ég verð að komast af.“

Verð að hafa vinnu

Hún segir of mikið óöryggi felast í því að búa áfram á Djúpavogi. Vinnsla verður áfram á staðnum í einhverja mánuði en hvað svo?

„En ég verð að hugsa um börnin mín. Ég verð að hafa vinnu. Ég er að flytja því ég vil hafa vinnu, ég vil ekki bætur frá hinu opinbera,“ segir Delia.

Vísir býðst til að aðstoða fólk við að finna húsnæði í Grindavík og einnig að greiða fyrir búferlaflutningana. Það segir Delia mikinn létti.

En myndi Delia vera að flytja frá Djúpavogi ef Vísir væri ekki að hætta starfsemi sinni þar? „Nei, ég myndi vera áfram.“

Vona það besta

„Ég upplifi mikla óvissu,“ segir Guðjón Rafn Steinsson, 15 ára, sem er fæddur og uppalinn á Djúpavogi. „Mér finnst eins og allir haldi í vonina, búist við hinu versta en voni það besta.“

Í haust ætlar hann að hefja nám á tungumálabraut í Menntaskólanum á Akureyri. Hann segist stefna á að flytja aftur til Djúpavogs að loknu námi. Hann segir það þó velta á því að atvinnu verði að fá í bænum. Hann segir að jafnaldrarnir á Djúpavogi tali mikið um brotthvarf Vísis og hafi kynnt sér málið vel. „Þetta snýst ekki bara um að Vísir sé að fara,“ segir Guðjón. „Það mun fækka í skólunum, það minnka viðskipti við búðirnar og alla þjónustu. Þetta hefur áhrif á allt, líka aðrar atvinnugreinar.“

Guðjón segir að nokkrir krakkar í grunnskólanum muni nú flytja til Grindavíkur með foreldrum sínum. „Þetta eru krakkar sem eiga hér sína vini og þurfa nú að flytja.“

Guðjón bendir á að mikið sé talað um að laxeldi Fiskeldis Austfjarða í Berufirði muni vaxa og að fleiri störf muni skapast í tengslum við það. Hins vegar sé nokkuð í að slíkt gerist. Því verði eitthvað annað að koma til næstu 2-3 árin, nú þegar Vísir er að fara. „Fólk getur ekki búið hér án atvinnu. Það mun því fara ef ekkert breytist.“

Hann segir að besta staðan væri sú að Vísir eða annað fiskvinnslufyrirtæki yrði áfram og laxeldið þar að auki. Það hefði breytt miklu, jafnvel hefði fjölgað í bænum og einhver uppbygging orðið. Guðjón segir að vissulega sé ferðaþjónustan vaxandi atvinnugrein á Djúpavogi en hún muni aldrei koma í staðinn fyrir stórt fyrirtæki á borð við Vísi. Hann segir þó mikilvægt að líta á björtu hliðarnar. „Þær eru þó kannski ekki svo margar. En maður verður að reyna að vera bjartsýnn.“

Þurfum að standa saman

Jóna Kristín Sigurðardóttir hefur búið á Djúpavogi í 32 ár. Maðurinn hennar er sjómaður og er á togara sem gerður er út frá Fáskrúðsfirði. „Það er margt sem hefur breyst hér undanfarin ár, hér eru engir togarar. Maðurinn minn valdi því þann kostinn að fara á togara frá Fáskrúðsfirði. Þeir eru með heimahöfn þar, svo hann keyrir bara á milli Fáskrúðsfjarðar og Djúpavogs.“

Jóna á tvo syni, annar er í afleysingum á sama togara og faðir hans og hinn í Háskólanum í Reykjavík.

Í september verður Jóna búin að vinna í frystihúsinu á Djúpavogi í 26 ár, þar af hefur Vísir rekið vinnsluna í 15 ár. „Þetta hefur verið mjög góður vinnustaður og mér þykir mjög vænt um Vísi.“

Jóna segir stjórnendur Vísis ætíð hafa reynst sér vel. „Þannig að þegar þetta kom upp í vor, að þeir væru að loka, þá þurfti ég virkilega að hugsa mig um. Mig langaði að fara,“ segir Jóna sem fer reglulega á vegum Vísis til Grindavíkur til að bera saman bækur sínar við aðra matsmenn fyrirtækisins. Hún segir fólkið þar vinalegt, á sínum aldri og tækifærið því spennandi í hennar huga. „En nú hef ég ákveðið að fara ekki, að minnsta kosti í bili. Ég er orðin sátt við þá ákvörðun.“

En hvað varð til þess að hún tók þá ákvörðun?

„Trú á staðnum,“ segir Jóna ákveðin. „Þó að þetta gerist núna tel ég að Djúpivogur eigi framtíðina fyrir sér.“ Hún nefnir sem dæmi uppbyggingu í tengslum við ferðaþjónustuna og segist vilja horfa á tækifærin og möguleikana.

„Ég veit ekki frekar en aðrir hvað er framundan. En ég ætla að vera bjartsýn. Við sem eftir erum þurfum að standa saman. Við þurfum að vera uppörvandi, ekki draga hvert annað niður. Við þurfum að hafa trú á okkur sjálfum og þessum stað.“

Jóna Kristín er matsmaður og segir að sú reynsla muni nýtast sér við laxaslátrunina sem hefst hjá Vísi í haust. „En það versta er óvissan. Við vitum nokkurn veginn hvað gerist þetta árið en hvað gerist á næsta ári?“

Laxeldið eitt og sér nægi ekki til að halda úti fullri starfsemi í fiskvinnslunni á Djúpavogi. „Við þurfum eitthvað annað með.“

Jóna segir misjafnt hvernig íbúar á Djúpavogi hafi tekið tíðindunum af brottför Vísismanna. Vissulega séu sumir hreinlega í sárum. Fyrstu vikurnar eftir að ákvörðunin var kunngjörð hafi verið erfiðastar. Fólk sé svo að átta sig á því núna að margir muni flytja úr bænum í haust. „Og það hefur komið svolítið bakslag. En ég breyti þessari ákvörðun ekki. Og því ætla ég að vera jákvæð. Það verður að stappa stálinu í þá sem eftir eru. Það er einfaldlega þannig.“

Vill prófa eitthvað nýtt

„Það er gott að búa á Djúpavogi en ég hef ákveðið að flytja til Grindavíkur,“ segir Jacek Ptak, starfsmaður Vísis, sem hefur búið á Djúpavogi í sjö ár. Hann langar að prófa að búa á nýjum stað, en útilokar ekki að snúa aftur. Jacek á fjölskyldu á Djúpavogi, móður og bróður. Móðir hans vinnur hjá Vísi og hefur líka ákveðið að flytja. Bróðir hans ætlar að búa áfram á Djúpavogi. „Ég er spenntur að prófa eitthvað nýtt,“ segir Jacek sem er einhleypur og barnlaus. „Kannski ég skoði aðeins konur í Grindavík,“ segir hann og hlær.

Strax í haust mun verulega draga úr starfsemi Vísis á …
Strax í haust mun verulega draga úr starfsemi Vísis á Djúpavogi. Sunna Ósk Logadóttir
„Þegar ég flyt þarf ég að byrja upp á nýtt,“ …
„Þegar ég flyt þarf ég að byrja upp á nýtt,“ segir Delia. mbl.is/Sunna Ósk Logadóttir
Frá starfsstöð Vísis á Djúpavogi.
Frá starfsstöð Vísis á Djúpavogi. mbl.is/Golli
Smábátar við höfnina á Djúpavogi.
Smábátar við höfnina á Djúpavogi. mbl.is/Sigurður Bogi
Guðjón Rafn Steinsson, 15 ára Djúpavogsbúi.
Guðjón Rafn Steinsson, 15 ára Djúpavogsbúi. mbl.is/Sunna Ósk Logadóttir
Flytji margir úr bænum, eins og útlit er fyrir, mun …
Flytji margir úr bænum, eins og útlit er fyrir, mun það hafa áhrif á verslun, þjónustu og bæjarbraginn. mbl.is/Golli
Jóna Kristín Sigurðardóttir, matsmaður, ætlar ekki að flytja. Hún segir …
Jóna Kristín Sigurðardóttir, matsmaður, ætlar ekki að flytja. Hún segir nauðsynlegt að halda í vonina og vera bjartsýnn. Sunna Ósk Logadóttir
Jacek Ptak hefur unnið hjá Vísi á Djúpavogi í sjö …
Jacek Ptak hefur unnið hjá Vísi á Djúpavogi í sjö ár. Hann ætlar nú að flytja til Grindavíkur. Sunna Ósk Logadóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert