Ákváðu að hanna lausnina sjálf

Ingunn Ingimarsdóttir er framkvæmdastjóri Memaxi
Ingunn Ingimarsdóttir er framkvæmdastjóri Memaxi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Forsvarsmenn fyrirtækisins Memaxi hlutu á dögunum þriggja ára verkefnisstyrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís til þróunar á samnefndu skipulags- og samskiptakerfi, sem er sérstaklega ætlað einstaklingum með heilabilun eða langvinna sjúkdóma og aðstandendum þeirra.

Viðmót Memaxi eru tvö; annars vegar gagnvirk skjámynd með dagatali og netsíma fyrir sjúklinginn eða skjánotandann, og hins vegar aðgangur í gegnum vefvafra, þar sem aðstandendur geta sett inn upplýsingar og breytt stillingum.

Ingunn Ingimarsdóttir er framkvæmdastjóri Memaxi en hún segir að hugmyndin að kerfinu hafi kviknað þegar tengdaforeldrar hennar greindust með sjúkdóma sem höfðu áhrif á minni þeirra.

„Tengdapabbi minn var greindur með Alzheimer og tengdamamma með framheilabilun, þar sem hún fór að missa skammtímaminnið,“ útskýrir Ingunn. Þegar þau greindust bjó stór hluti tengdafjölskyldu hennar í sama húsi; Ingunn og eiginmaður hennar, Páll Borg, á fyrstu hæðinni, mágkona og fjölskylda á annarri, tengdaforeldrar hennar á þriðju og mágur og fjölskylda á efstu hæð.

„Við sáum mjög fljótt hvað var að gerast og áttuðum okkur á því að þau væru farin að gleyma. Mágkona mín, sem er hjúkrunarfræðingur, tók að sér þessi verk að fara til lækna og allan heilsufarspakkann en síðan vorum við farin að skipta með okkur verkum; fara upp og athuga með þau, vakna með þeim á morgnanna og þetta þróaðist þannig að við fórum öll að hugsa um þau,“ segir Ingunn.

Skipulagið varð þeim ofviða

Þrátt fyrir að þau byggju öll í sama húsi og héldu fundi á sunnudögum til að fara yfir umönnunarverkefni vikunnar, varð skipulagið þeim ofviða. Þau gerðu tilraunir með dagatöl og tússtöflur en fannst einnig vanta vettvang til að miðla öðrum upplýsingum en hvað þyrfti að gera og hvað væri á döfinni. Ingunn, sem er tölvunarfræðingur og forritari, hugsaði sem svo að það gæti ekki verið mikið mál að hanna lausn og í kjölfarið fæddist hugmyndin að Memaxi.

Ingunn og eiginmaður hennar eiga fyrirtækið í félagi við írska bræður sem búa á Englandi og í Póllandi en móðir þeirra var alzheimersjúklingur. Þau hafa m.a. átt í samstarfi við bresku heilbrigðisþjónustuna, NHS, og öldrunarþjónustuna á Akureyri um prófun á kerfinu en notendur þess, sjúklingar og aðstandendur, eru nú um 1.500 talsins.

Dagatal og skipulagskerfi

„Memaxi nýtist m.a heilabiluðum, þeim sem búa við langvinn veikindi, þeim sem eru með áunninn heilaskaða, heyrnarlausum, geðfötluðum og öllum þeim sem njóta umönnunar og eftirfylgni. Tölvuskjárinn er tengdur netinu og settur á áberandi stað inni á heimili skjánotandans, sem les dagskrána og skilaboð af skjánum, hringir og tekur á móti vídeó-símtölum og verður þannig virkur þátttakandi í eigin lífi.

Kerfið sendir út tölvupósta og SMS til notenda til að minna á læknisheimsóknir og annað sem má ekki gleymast en kerfið getur líka látið vita af heimsóknum inn á heimilið til að þeim sé betur dreift,“ segir Ingunn.

Memaxi má að miklu leyti sníða að þörfum hvers og eins en styrkurinn frá Tækniþróunarsjóði verður m.a. nýttur til að þróa kerfið frekar og útfæra það fyrir spjaldtölvur og snjallsíma. Þá segir Ingunn að næstu uppfærslur muni m.a. opna fyrir tengingar á tölvuleiki til að efla færni og minni, tónlistarspilara, beinar útsendingar í sjónvarpi og útvarpi, veðurupplýsingar og einfalt tölvupósts- og vefviðmót.

Eykur sjálfstæði fólks

Ingunn segir kerfið hafa fengið afar góðar viðtökur og þau hafi fengið margar góðar ábendingar frá notendum. Hún segir reynsluna hafa sýnt að forritið gagnist jafnvel á seinni stigum Alzheimer-sjúkdómsins og að eftirspurnin eftir einföldum tæknilausnum muni aukast.

„Fólk sem er sextugt núna verður áttrætt eftir 20 ár og það hefur unnið við og notað tölvur og vill gera það áfram. Þetta verður eins og með bílinn; ef þú missir bílinn þá missirðu sjálfstæðið, og ef þú missir tölvuna og netið og sambandið við umheiminn þá missirðu sjálfstæðið. Þá hættirðu að geta fylgst með. Ég held að þetta sé það sem koma skal,“ segir hún.

Á hennar eigin heimili er Memaxi notað til að halda utan um dagskrá fjölskyldunnar og Ingunn segir að við þróun kerfisins verði einnig horft til þarfa barnafjölskyldna. Hún segir erfitt að vera án kerfisins þegar maður hefur vanið sig á að nota það. „Oft heyrum við ekkert frá fólki fyrr en rafmagnið fer af eða það dettur út internettengingin. Þá allt í einu fattar fólk hvað það treystir mikið á þetta,“ segir Ingunn.

Viðmót Memaxi eru tvö; annars vegar gagnvirk skjámynd með dagatali …
Viðmót Memaxi eru tvö; annars vegar gagnvirk skjámynd með dagatali og netsíma fyrir sjúklinginn eða skjánotandann, og hins vegar aðgangur í gegnum vefvafra, þar sem aðstandendur geta sett inn upplýsingar og breytt stillingum. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert