Fimmtán milljónum úthlutað til Geysis

Rúmlega 380 milljónum verður úthlutað til uppbyggingar á ferðamannastöðum í …
Rúmlega 380 milljónum verður úthlutað til uppbyggingar á ferðamannastöðum í sumar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hverasvæðið Geysir fær úthlutað fimmtán milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum í sumar. Fjármununum er ætlað til framkvæmda á stígum og öryggisgrindverkum, að því er segir í frétt á vef iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. 

Úthlutað er fjörutíu milljónum króna til framkvæmda hjá Dettifossi, þar af er fimmtán milljónum ætlað til framkvæmda á nýjum hundrað fermetra útsýnispalli við Dettifoss að vestan og 25 milljónum til framkvæmda á nýjum 260 metra löngum göngupalli við Dettifoss að vestan.

Alls er úthlutað styrkjum upp á 380 milljónir króna til 88 verkefna um land allt sem talin eru brýn vegna verndunar eða öryggissjónarmiða og þola ekki bið.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, undirritaði í dag reglugerð um úthlutun styrkjanna.

Um er að ræða framkvæmdir á gönguleiðum eða göngustígum sem liggja undir skemmdum. Þá þarf víða að koma upp öryggisgrindverkum og pöllum við fossa og hveri til að tryggja öryggi ferðamanna en talið er að slysahættan sé veruleg á mörgum þessara staða.

Reglugerðin setur ramma um úthlutunina og er í henni kveðið á um hvaða verkefni eru styrkhæf, hvaða kröfur eru gerðar til styrkþega og eftirlit um framvindu verkefna.

Þá er fimmtán milljónum króna úthlutað til byggingar fimmtíu fermetra útsýnispalls við Svartafoss í Vatnajökulsþjóðgarði og aðgerða á svæðinu til að hefta rof. Tíu milljónum er einnig úthlutað til lagfæringa á göngustíg að Svartafossi.

Heildarlisti um verkefni sem fá styrk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert