Frumsýna 13 íslenskar heimildarmyndir

Skjaldborg fer fram að mestu leyti í Skjaldborgarhúsinu við Aðalstræti …
Skjaldborg fer fram að mestu leyti í Skjaldborgarhúsinu við Aðalstræti á Patreksfirði.

„Undirbúningurinn er á fullu og það gengur mjög vel. Ég er einmitt að fara um borð í flugvél eftir klukkutíma til að fara vestur,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, en hann er einn af skipuleggjendum heimildarmyndahátíðarinnar Skjaldborgar sem fer fram á Patreksfirði um helgina. „Þar munum við byrja að gera allt tilbúið í bíóinu í samstarfi við sýningastjórana og Lionsmenn á Patreksfirði sem eiga bíóið.“

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, verður nú haldin í áttunda sinn. Að sögn Hafsteins er úrval mynda á hátíðinni í ár mjög gott en 13 nýjar íslenskar heimildarmyndir verða frumsýndar á hátíðinni. 

Hátíðin mun að mestu fara fram í Skjaldborgarhúsinu sem stendur við Aðalstræti á Patreksfirði. Í dag er rekið bíó í húsinu en það er Lionsklúbbur Patreksfjarðar sem heldur utan um þær sýningar.

Hafsteinn segir að gert sé ráð fyrir um 400 til 500 gestum á hátíðina í ár. „Gestafjöldinn um helgina er líka skemmtilegur í ljósi þess að á Patreksfirði er nú búið að útbúa nýtt og glæsilegt tjaldstæði þannig að það er um að gera að sem flestir prufukeyri það. Síðan skemmir ekki fyrir hvað veðurspáin er góð.“

Heiðursgestur hátíðarinnar að þessu sinni er rússneski heimildarmyndagerðarmaðurinn Victor Kossakovsky. Samkvæmt heimasíðu Skjaldborgar hefur Kossakovsky á undanförnum árum skapað sér stórt nafn í alþjóðlegri heimildamyndagerð, og verða nokkur af lykilverkum hans sýnd á Skjaldborg.

„Kossakovsky kemur til Íslands í dag og fer síðan vestur á morgun. Hann er mjög spenntur fyrir að koma, hann hefur aldrei áður komið til Íslands. Við munum nú reyna að sýna honum eitthvað fleira af landinu en bíóhúsið.“

Aðspurður segir Hafsteinn að mikil spenna sé í hópnum vegna komu Kossakovskys. „Hans myndir og nærvera eru frábær viðbót við hátíðina. Það er mikið að gerast í íslenskri heimildarmyndagerð og er hátíðin orðin uppskeruhátíð fyrir þá sem vinna að þeim hér á landi.“

Heimasíða Skjaldborgar.

Frá hátíðinni í fyrra
Frá hátíðinni í fyrra
mbl.is