Nýtt tónverk við hvern flutning

Tónlistarforritun er flókið fyrirbæri
Tónlistarforritun er flókið fyrirbæri

„Verkið er skrifað fyrir þrjár fiðlur, selló og hreyfiskynjara. Það er skrifað með virkri nótnaskrift eða animated notation“ sem birtist á skjá. „Y“ er fyrsta verk eftir hlé áður en áhorfendur setjast aftur í sætin sín. Það eru því hreyfingar áhorfenda sem hafa áhrif á nótnaskriftina og ferli verksins og verkið endurskapar sig því í hverjum flutningi. Það að nótnaskriftin breytist í rauntíma kallast rauntímanótnaskrift,“ segir Ingibjörg Friðriksdóttir, en í kvöld klukkan 21 verður verk hennar „Y“ frumflutt í Gym & Tonic-sal Kex hostels við Skúlagötu. 

Frumflutningurinn er hluti af kammertónlistarhátíðinni Podium festival. Hátíðin fer nú fram í fjórða skipti.

Flytjendur túlka tilfinningar

Ingibjörg útskrifaðist á seinasta ári með BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands en áður hafði hún lokið burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík. Lokaritgerð hennar frá Listaháskólanum fjallaði um virka nótnaskrift (e. animated notation) undir yfirskriftinni „Tækifæri og takmarkanir virkrar nótnaskriftar“. Að sögn Ingibjargar nær hún að nýta þekkinguna sem hún öðlaðist við gerð ritgerðarinnar við að ögra hefðbundna nótnaskriftarkerfinu, en í verkum hennar er rík áhersla á að skoða möguleika tækni og forritunar í tónlist.

Verk eftir Ingibjörgu hafa meðal annars verið flutt á Myrkum músíkdögum, Podium festival og Menningarnótt í Reykjavík. Á Myrkum músíkdögum var verkið Right is wrong flutt af Tinnu Þorsteinsdóttur í Kaldalóni í Hörpu en það fékk góða umfjöllun í virta breska tímaritinu The Times.

„Verkið Y er einnig óhefðbundin að því leyti að í staðinn fyrir hefðbundin tónlistarstyrkleika- og túlkunarorð eins og forte og pianissimo fá flytjendur ákveðna tilfinningu sem þeir eiga að túlka. Flytjendurnir hafa ekki séð þessar tilfinningar áður og eiga því að bregðast við túlkuninni án þess að hugsa of mikið út í það. Þar sem flytjendurnir eru erlendir urðu orðin að vera á ensku. Dæmi um túlkunarorð er „nasty“, „lovesick“ og „snoopy“.“

Nýir möguleikar verða til

Ingibjörg byrjaði að skrifa „Y“ í febrúar síðastliðnum þegar hún var nýkomin heim frá löngu ferðalagi um Mið- og Suður-Ameríku. „Upphaflega hugmyndin var sú að allar gjörðir hefðu afleiðingar. Síðan ég útskrifaðist úr LHÍ hafði allt snúist um ferðalagið. Allt í einu var ég þó komin heim og stóð frammi fyrir því að vera útskrifuð með BA-gráðu í tónsmíðum. Ég gekk í gegnum tímabil sem ég vil kalla „quarter life crisis“, sem ég held að margir 25 ára einstaklingar gangi í gegnum. Ég var allt í einu orðin stór, verð líklega ekki stærri nema á þverveginn, og hafði enn ekki svarið við því hvað ég ætlaði að verða.“

Að mati Ingibjargar enda slíkar vangaveltur oft með pælingunni að ef maður geri X mun Y gerast, þ.e. að allar gjörðir hafi afleiðingar. „En sannleikurinn er líklega sá að ef þú gerir X mun Z gerast. Þú gerir eitthvað sem hefur einhverjar afleiðingar en það er ómögulegt að reyna að stjórna framtíðinni. Eina sem þú getur treyst á er að ef þú gerir ekki neitt mun ekki neitt gerast.“

Samkvæmt Ingibjörgu kynntist hún fyrst virkri nótnaskrift í gegnum tónskáldahópinn S.L.Á.T.U.R. Danska tónskáldið Jesper Pedersen, sem tilheyrir S.L.Á.T.U.R., kennir við LHÍ og Ingibjörg sótti um að vera fyrsti einkanemandi hans á lokaári hennar. Að sögn Ingibjargar aðstoðaði Jesper hana við að kemba úr byrjunarörðugleikum við að læra forritunartungumál og eftir það varð ekki aftur snúið fyrir unga tónskáldið.

„Ég hef líka skrifað verk með hefðbundinni nótnaskrift, og geri það reglulega þar sem mér finnst það eiga við. Það sem er mjög áhugavert við virka nótnaskrift eru allir þeir nýju möguleikar sem verða til. Bara það eitt að velta því fyrir sér hvernig flytjandinn bregst við nótum sem hreyfast er skemmtilegt að skoða. Svo ekki sé talað um alla möguleikana sem verða til þegar nótur verða til í rauntíma.“

Alltaf fleiri að bætast við

Að sögn Ingibjargar eru ekki mörg íslensk tónskáld sem notast við virka nótnaskrift. „Hér á landi er það aðallega S.L.Á.T.U.R. og sá hópur er vissulega brautryðjandi í þessu. En svo hafa aðrar listgreinar unnið með svipaðar hugmyndir, að vinna saman með skjávarpa og hljóð. Þetta er samt tiltölulega nýtt þar sem tæknin er smám saman að þróast og verða aðgengilegri og ódýrari.“

Ingibjörg veit þó ekki til þess að aðrir hafi notast við hreyfiskynjara til að stjórna nótnaskrift. „Það má samt alveg vera að það sé til. Það er ekkert nýtt undir sólinni. Líklega var þetta gert á miðöldum og það bara gleymdist að skrifa það í sögubækurnar.“

Að sögn Ingibjargar var virk nótnaskrift nokkuð flókin til að byrja með. „Þetta er flókið en verður alltaf auðveldara. Ég er samt enn að læra svo að Google er besti vinur minn. Það eru alls konar sérvitringar þarna úti sem þrá að hella úr sínum viskubrunni yfir vitleysinga eins og mig. Það eru líka afar fáar stelpur sem hafa nennt að fara út í tónlistarforritun. En það eru alltaf að bætast við fleiri sem er skemmtilegt.“ 

Hér má nálgast upplýsingar um Podium festival.

Ingibjörg Friðriksdóttir
Ingibjörg Friðriksdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert