Veðrið bæði varasamt og hrífandi

Göngufólk á Fimmvörðuhálsi. Þýski skálvörðurinn Uwe segist hrífast af íslenska …
Göngufólk á Fimmvörðuhálsi. Þýski skálvörðurinn Uwe segist hrífast af íslenska veðrinu og litbrigðum landslagsins. mbl.is/hag

„Flestir vita alveg hvað þeir eru að gera, en á hverju ári koma 2-3 sem eru virkilega illa búnir,“ segir Uwe Lienhoop, skálavörður á Fimmvörðuhálsi. Uppbókað er í skálanum alla vikuna, og raunar allar nætur í sumar, en þau sem ætluðu að gista í nótt flýttu ferð niður í Bása vegna veðurspárinnar.

Tvær djúpar lægðir eru væntanlegar yfir landið, hvor á eftir annarri næstu daga og búast má við mikilli úrkomu sunnanlands seint á morgun. Stöðug umferð er af göngufólki alla daga sumarsins á Fimmvörðuhálsi, en gönguleiðin liggur hæst í um 1.100 metra hæð og gæti veðrið orði ansi hryssingslegt þar næstu daga.

Ráðleggur óöruggum að ganga ekki á morgun

Í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi eru um 20 gistipláss, en flestir þeir sem velja að taka gönguleiðina á tveimur dögum og gista eru útlendingar, að sögn Uwe. Til viðbótar eru margir sem ganga hálsinn á einum degi. Uwe segir að göngufólk sem kom í skálann í dag hafi ákveðið að halda áfram niður í Bása eftir að hafa farið yfir veðurspána, því von sé á mikilli rigningu á morgun. Þá hefur 13 manna hópur afbókað sig annað kvöld.

Uwe segir að ef fólk sé óöruggt og hringi eftir ráðum þá ráðleggi hann því núna að ganga ekki Fimmvörðuhálsinn á morgun. Sjálfur kom hann í skálann um hádegi og leysti fyrri skálavörð af. „Ég var keyrður að Baldvinsskála og gekk þaðan og það var dálítið erfitt að rata út af rigningu og þoku. Ég þekki leiðina mjög vel en í þetta sinn var erfitt að átta sig á staðarháttum. Á morgun og hinn á að verða mjög slæmt veður.“

Stundum kemur fyrir að skotið er skjólshúsi yfir göngufólk sem ekki á bókaða gistingu, ef veðrið er mjög slæmt eða það illa búið. Uwe segir það þó að meta verði aðstæður hverju sinni, stundum sé hægt að koma fólki fyrir á gólfinu en stundum vísi hann fólki áfram niður í Bása.“

Hrífst af veðrabreytingum og litbrigðum landsins

Uwe, sem er þýskur, hefur verið skálavörður á Fimmvörðuhálsi á hverju sumri í 7-8 ár og dvelur yfirleitt lengur en aðrir skálaverðir. Þessa stundina er hann einn í skálanum og verður það kannski á morgun líka, en hann kippir sér ekki upp við einveruna.

„Ég kann vel við mig og ég elska Ísland. Ég kem alltaf aftur, og reyni líka að læra smá íslensku, en það er erfitt,“ segir Uwe og skiptir milli íslensku og ensku. Merkilegt nokk þá nefnir hann veðrið fyrst, aðspurður hvað það sé nákvæmlega sem heilli hann svona við Ísland og Fimmvörðuháls.

„Ég kann vel við veðrið og veðrabreytingarnar,“ segir hann án þess að hika og finnst það alls ekki slæmt að verja sumarfríinu sínu í júlístormi. „Veðrið er alltaf að breytast og landslagið breytist með því. Ég kann að meta litbrigðin í íslensku landslagi, alla þessa tóna af svörtu og brúnu.“

Skáli Útivistar á Fimmvörðuhálsi er af mörgum notaður sem áfangi …
Skáli Útivistar á Fimmvörðuhálsi er af mörgum notaður sem áfangi á miðri göngu yfir hálsinn. Ljósmynd/Útivist
Göngufólk á gangi milli Magna og Móða sem mynduðust við …
Göngufólk á gangi milli Magna og Móða sem mynduðust við eldgosið 2010. Landslagið á Fimmvörðuhálsi breyttist talsvert í gosinu. mbl.is/HAG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert