„Geggjað að fá að fljúga“

Brand Bjarnason Karlsson málaði meðal annars myndir til að fjármagna …
Brand Bjarnason Karlsson málaði meðal annars myndir til að fjármagna kaup á flugstól sem hann mun nota til þess að fara í svifflug. Hann heldur sína fyrstu málverkasýningu á Vík í Mýrdal. mbl.is/Árni Sæberg

Brandi Bjarnason Karlssyni gefst loks tækifæri til að uppfylla draum sinn um að svífa um loftin blá í svifvængjaflugi. Ástæðan er sú að nú er lokið söfnun fyrir sérútbúnum flugstól sem nota má í flugið. Brandur þarf á stólnum að halda því hann er lamaður fyrir neðan háls, líkt og persónan Philippe í kvikmyndinni Intouchables, en hugmyndina fékk Brandur eftir að hafa horft á Phillipe fara í svifvængjaflug í kvikmyndinni hugljúfu. Hann segir að undirliggjandi sé mikill spenningur. „Með þessu er ég að vonast til þess að endurvekja drauma frá því í æsku þegar mann dreymdi um að fljúga,“ segir Brandur.

Margar hættur í heiminum

Margir hafa komið að söfnuninni en Össur á að mestu heiðurinn af hönnun stólsins. Ef veður leyfir hyggst Brandur fljúga ásamt kennara sínum Gísla Steinari Jóhannssyni um helgina. „Maður heldur væntingum niðri þangað til það kemur að þessu en auðvitað er geggjað að fá að fljúga,“ segir Brandur. Hann segist hvergi banginn. „Það er fagmaður með mér og maður er öruggur í þessum stól. Að auki fljúgum við ekkert nema í kjöraðstæðum. Ég sé ekki að þetta sé hættulegra en margt annað sem maður gerir,“ segir Brandur.

Brandur var ekki búinn að prófa stólinn þegar blaðamaður ræddi við hann en til stendur að gera það í dag. Fjáröflun fyrir verkefnið gekk vonum framar en svo Brandur gæti látið drauminn rætast þurfti að safna 800 þúsund krónum. Meðal fjáröflunarleiða Brands voru málverk sem hann málaði sjálfur og seldi hann tvö verk. Er meðal annars á dagskrá hjá honum að opna sína fyrstu málverkasýningu á listahátíð í Vík í Mýrdal sem fram fer um helgina. Verk hans eru flest landslagsverk. Í gegnum fjáröflunarvefsíðuna Karolinafund náði Brandur svo að fjármagna kaup á dróna og hyggst hann nota myndir úr honum til þess að mála eftir. Einskonar loftmyndir. Hann stefnir á að halda aðra sýningu í janúar þar sem hann mun sýna verk sem gerð verða eftir myndum úr drónanum. Brandur hafði aldrei málað áður en hann veiktist og lamaðist. Hann hefur náð mikilli færni með því að mála með munninum. „Það var eiginlega út af Eddu Heiðrúnu (Backman) sem ég byrjaði á þessu,“ segir hann.

Svifflug
» Brandur Bjarnason Karlsson stefnir að því að fara í svifflug um helgina.
» Brandur er lamaður fyrir neðan háls en hefur safnað fyrir sérútbúnum stól sem gerir það að verkum að hann getur látið drauminn rætast.
» Brandur fjármagnaði kaupin m.a. með því að mála.
Brandur Bjarnason.
Brandur Bjarnason. mbl.is/Styrmir Kári
Margir komu að söfnun flugstóls sem kostasði um 800 þúsund …
Margir komu að söfnun flugstóls sem kostasði um 800 þúsund krónur. Hér má sjá stólinn þegar hann var í hönnunarferli hjá Össuri.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert