Fjölmargir taka þátt í leitinni

Leitin hófst strax í gærkvöldi en tilkynnt var til lögreglu …
Leitin hófst strax í gærkvöldi en tilkynnt var til lögreglu klukkan 22:40 að bifreið hefði farið í Ölfusá. mbl.is/Guðmundur Karl

Leit var að hefjast á nýjan leik í og við Ölfusá en bifreið fór í ána á ellefta tímanum í gærkvöldi. Einn var í bílnum er hún hafnaði í ánni skammt fyrir neðan Selfosskirkju. Björgunarsveitir, lögregla, slökkvilið og Landhelgisgæslan taka þátt í leitinni.

Samkvæmt upplýsingum á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru björgunarsveitir úr Árnessýslu strax kallaðar út og síðar sveitir af höfuðborgarsvæðinu og Akranesi. Þyrla Landhelgisgæslunnar og kafarar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og sérsveit ríkislögreglustjóra tóku einnig þátt í leitinni. Um 100 manns leituðu fram á nótt en um klukkan þrjú var fækkað í leitarliðinu. Leit hófst svo aftur í birtingu.

Áin er bæði djúp og straumhörð við Selfosskirkju þar sem bifreiðin fór út í hana og aðstæður til leitar erfiðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni munu liðsmenn gæslunnar taka þátt í leitinni eftir hádegi í dag.

mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert