Snýst um mannréttindi og jafnræði

Óttarr segir að ganga verði út frá því að einstaklingum …
Óttarr segir að ganga verði út frá því að einstaklingum sé treystandi til að velja eigið nafn og nöfn barna sinna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það hefur fengið almennt góðar viðtökur. Það kann að helgast af því að það eru meiri líkur á því að menn sem eru jákvæðir tali við mig um það, en almennt séð hef ég fengið góðar viðtökur og átt góð samtöl og samræður, eftir umræður um tillöguna sem ég lagði fram í fyrra. Þetta er eiginlega framhald af þeirri tillögu, sem komst ekki til atkvæða í fyrra.“

Þetta segir Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, um frumvarp um breytingar á lögum um mannanöfn sem hann hefur lagt fram í annað sinn. Breytingarnar fela m.a. í sér að mannanafnanefnd verði lögð niður og reglum um ættarnöfn breytt, þannig að öllum verði heimilt að taka upp ættarnafn.

Meðal flutningsmanna frumvarpsins eru þingmenn Bjartrar framtíðar, Pírata, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og segist Óttarr vongóður um að það verði samþykkt.

„Ég er nú alltaf bjartsýnn að eðlisfari, en já, ég er alveg þokkalega bjartsýnn á að þetta fái góða meðhöndlun í þinginu,“ segir hann. Hann setur þó þann fyrirvara á málið, að þó þeim tilfellum hafi fjölgað þar sem þingmannafrumvörp fái fulla meðferð í þinginu, sé það ekki gefið.

Lögin um mannanöfn og mannanafnanefnd hafa lengi, ef ekki alltaf, verið umdeild. Spurður að því hvers vegna þeim hafi ekki verið breytt eða þau afnumin fyrr, segir Óttarr reglurnar hafa breyst og þróast eftir því sem mál hafi komið upp. Þá hafi löngum verið vísað til málverndarsjónarmiða í þessu samhengi.

Óttarr segir frumvarpið opna á að fólk taki upp ættarnöfn; að þau verði ekki lengur forréttindi þeirra sem hafa erft þau eða flutt þau með sér til landsins. Hann segir ekki þar með sagt að allir hlaupi til og nýti sér þennan rétt.

„Lögin loka ekki á þær hefðir og þau nöfn sem hafa verið við lýði, þannig að ég geri ekki ráð fyrir og sé ekki fyrir mér að þetta muni gjörbreyta nöfnum á Íslandi. Þvert á móti í raun og veru, ég held að þetta muni frekar auka sátt um nöfn á Íslandi,“ segir þingmaðurinn.

Óttarr segir að fyrir sér snúist málið um mannréttindi og jafnræði.

„Að við treystum einstaklingunum sjálfum fyrir því að ákveða hvað þeir heita og göngum út frá því að einstaklingar taki þá ákvörðun, fyrir sína hönd og barnanna sinna, ekki af léttúð. Og það sé ekki rétt að stjórnvöld stjórni því hvernig fólk kennir sig,“ segir hann.

Hann segir framkvæmd laganna hafa skapað ójafnræði sem ekki þjóni samfélaginu og vísar m.a. í ákvæði um ættarnöfn og mál Blævar Bjarkardóttur, sem fór fyrir héraðsdóm.

„Þetta eru mál sem geta verið mikil hjartansmál fyrir einstaklinginn, en erfitt að réttlæta og sjá fyrir hverju samfélagið er að vernda sig,“ segir hann.

Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert