Voru tilmælin beinlínis hættuleg?

„Aðgerðastjórn björgunarsveita á Suðurnesjum beinir þeim tilmælum til fólks að teipa rúður að innan vegna hættu á að þær brotni.“ Svona hljóðaði fréttatilkynning sem send var út í gærkvöldi, þegar óveður gekk yfir landið. Bandarískir fjömiðlar greina hins vegar frá því að tilmælin orki tvímælis.

Einnig kom fram í tilkynningunni að mikið álag hefði verið á björgunarsveitum á þessum tíma og því væri fólk beðið að fara að þessum fyrirmælum.

Nokkur umræða var um tilmæli sem þessi vestanhafs árið 2012 eftir að Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna (e. National Hurricane Center) varaði íbúa á hættusvæði við því að líma límband innan á rúður hjá sér. Bæði taldi miðstöðin að það veitti fólki falska vernd en væri einnig til þess fallið að auka líkur á slysum. „Okkar markmið er að uppræta þessa þjóðsögu. Þetta er ekki til þess að vernda gluggana,“ sagði Bill Read hjá NHC í samtali við fréttastofuna CBS.

Málið er að með því að líma límband innan á rúðurnar aukast líkurnar á stærri glerbrotum, brotni rúðan yfirleitt. Og með stærri glerbrotum eykst hættan á því að einhver slasist þegar þeim rignir yfir heimilið.

Read sagði að á áttunda áratugnum hefði verið mælt með því að teipa rúður en því verið hætt áratug síðar og í raun mælt gegn því frá þeim tíma.

Á vefsvæðinu Gismodo má sjá lista yfir fimm þjóðsögur sem tengjast fellibyljum. Þar segir um teipun rúða: „Þegar eitthvað fýkur í rúðu sem er án límbanda eru meiri líkur en minni á því að hún splundrist í þúsund mola. Það kann að hljóma illa en er mun skárra en að fá stærri og hættulegri glerbrot yfir sig.“

Og til þess að taka af allan vafa gerði fréttastofa Fox tilraun með teipun rúða. „Það eina sem er verra en engin vörn fyrir fellibyljum er röng vörn og við viljum sjá til þess að íbúar séu undirbúnir þegar vindar byrja að blása,“ sagði Leslie Chap-Henderson, sem fer fyrir samtökunum FLASH.

Tilraunina má sjá hér að neðan: 

FOX 13 News

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert