„Þarna er í sjálfu sér bara verið að biðja menn um að leyfa okkur að horfa blygðunarlaust í augu við sjálf okkur í sameiginlegum skjá okkar allra. Það er að við fáum að borga okkar útvarpsgjald með atfylgi ríkisins í stað þess að þurfa að fara að efna til söfnunar og samskota.“
Þetta segir Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður sem er einn þeirra sem stendur að samstöðufundi með Ríkisútvarpinu á Austurvelli í Reykjavík í dag klukkan 17:00. Upphaflega var boðað til fundarins á mánudaginn en honum var hins vegar frestað þá vegna veðurs. Jakob segir mikilvægt að menningarstigi landsins verði haldið í lagi og staða Ríkisútvarpsins væri ákveðinn mælikvarði í þeim efnum.
„Þetta er það sem við horfum á daglega og lifum með og verðum að sætta okkur við. Við viljum fá að borga þennan tvö þúsund kall á ári sem er af einhverjum mjög einkennilegum ástæðum að lækka. Við teljum að það sé byggt á einhverjum misskilningi eða einhverri stundarreiði einhvers eða einhverra sem er ekki við hæfi í þessu samhengi. Þá bara í von um að menn skilji það og virði það að við nennum síður að þurfa að efna til þjóðarsöfnunar um dagskrárgerð á sameiginlega upplifunarmiðlinum okkar allra.“
Jakob segir Ríkisútvarpið vera ákveðinn klett í hafinu fyrir hinar skapandi greinar hér á landi og þá ekki síst þegar að tónlistarlífinu komi. „Það þarf að varðveita vandlega nútímann og festa hann bæði í hljóð og mynd og það sem máli skiptir á hverjum tíma og svo þarf jafnframt að varðveita það til framtíðar, rækta það og endurvinna og annað slíkt. Þetta er einu sinni stærsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs, það eru hinar skapandi greinar, og þetta er þeirra vettvangur. Þetta er þeirra eina trausta, viðvarandi athvarf.“
Hann segir að aðstandendur samstöðufundarins vonist til þess að ráðamenn taki mark á honum. „Þannig að það hlýtur bara að vera hægt að taka vinsamlegum tilmælum um það þannig að við þurfum ekki að fara að standa í viðvarandi tónleikahaldi utandyra eða söfnunum innandyra til þess að geta bara verið sátt við skjáinn okkar. Þetta er bara það og ég treysti því að menn taki þetta alvarlega og átti sig á því að okkur er mjög annt um þennan sameiginlega skjá okkar.“ Samstöðufundurinn væri sérstakur fyrir þær sakir að verið væri að mótmæla lækkun gjalda á almenning.